Ég tók að mér leiðsögu í fimm daga róðri fyrir Skútusiglingar á Ísafirði með stuttum fyrirvara. Ferðalangar voru tveir Þjóðverjar, lítill og stór og kanadísk (ævintýra)kona. Leiðin lá inn Djúpið með viðkomu í Vigur, Æðey, Skjaldfannardal, Borgarey og Reykjanesi.
Nokkur atriði komu mér á óvart:
- mikilvægur hluti starfsins eru matarinnkaup og eldamennska
- hlutverk mitt var einnig að velja búnað á fólkið og fyrir ferðina
- fyrsta verkefnið á sjó var kennslustund, ferðalangarnir voru byrjendur, einn hafði aldrei sest í kajak
- ábyrgðin í hlutverkaleik í klúbbferðum er barnaleikur miðað við hvað lagðist yfir mig þegar ég lagði af stað út í 10 m/s vindöldu yfir Seyðisfjörð og til Vigrar með þennan hóp
- fyrsta lending með byrjendur var brimlending í Vigur
- fyrsta nótt mín var í blautum svefnpoka, án dýnu, í indjánatjaldi án botns.
- næsta nótt var stormvakt, labbitúrar með stóra steina í fanginu, styrking á miðsúlu með ár og teipi, viðgerðir á slitnum tjaldstögum
- dagróður varð næturróður vegna veðurs, en nóttin iðaði af selum og hvölum
- ég kveikti aldrei á nýja GPS tækinu, leit aldrei á gamla áttavitann og kveikti á gemsa nokkrar mínútur í fáein skipti, lítið kort og gott skyggni dugði vel
Eitt enn, það er mikið líkamlegt erfiði við lendingar og sjósetningar með svo óvanan hóp. Þau setjast í sætið á þurru, fá aðstoð við að festa svuntuna og svo ýti ég þeim á flot, líka manni sem er meira en höfði hærri en ég og vel þungur, veð svo lengra út og sný bátnum upp í vindinn til þess að fá þau ekki aftur upp í fjöru áður en ég kemst á flot. Eigi að síður var þetta dásamleg ferð fyrir mig með hæfilegum áskorunum og baráttu og mér heyrðist það sama gilda um þessa indælu skjólstæðinga mína, skapgott fólk með ágætt skopskyn. Fyrsta kvöldið, eftir vosbúð og baráttu, einni GoPro vél færra eftir fjandsamlega öldu yfir dekk þess stóra, sátum við öll í stóra tjaldinu og snæddum forvitnilegan og góðan mat skömmu fyrir miðnætti. Þá sagði ég við þau: "You have done well today, you are my heroes."