Undirrituð játar hvorki né neitar því að hafa borið skilaboð veðurstofunnar um brakandi kayakblíðu í dag og vísar allri ábyrgð heim til föðurhúsanna, þ.e. Veðurstofunnar. Vanhæf veðurstofa!
Brakandi kayakblíðan, sem einhverjir mættu til að njóta, reyndist vera tálsýn ein. Við fengum reyndar fallegt veður í fyrri hluta róðurs, sem var frá höfuðstöðvum okkar út í Viðey. Þar var tekin stutt kaffipása áður en haldið var áfram og Viðey hringuð. Seinni hluta ferðarinnar blés aðeins á okkur að Norðan og á milli Viðeyjar og Lundeyjar reyndi aðeins á jafnvægislist þeirra sem minna eru vanir. Einn ræðari fékk sér hressandi laugardagsbað en var snarlega bjargað aftur í bátinn. Það voru 14 ræðarar sem lögðu af stað frá Eiðinu góða, en fljótlega fjölgaði í hópnum þegar útileigumennirnir tveir sem höfðu næturvist í Akurey bættust við. Takk fyrir góða morgunstund, sjáumst í næstu viku.
Klara.