Ég reyndi við 5* próf í leiðsögu fyrir sjókajak í Skye/Skotlandi um daginn. Eftir þessa 2-3 daga kom í ljós að ég hafði ekki staðist, en dagarnir gilda sem 'þjálfun' í 3 ár ef ég nenni að reyna á ný.
Fyrsta kvöldið áttum við að gera áætlun fyrir eins til tveggja daga róður. Ég fékk Ermasundseyjar og var látinn fá sjókort og handbækur, upphafs- og endastað róðurs og 2 tíma fyrir verkefnið. Það er hægt að liggja yfir slíku svæði allan daginn, en líka hægt að gera lauslega áætlun á innan við hálftíma.
Þetta var róður frá Jersey til Guernsey, með viðkomu í smáeyjunum Sark og Herm. Einhverjir félaga okkar þekkja til þarna, en munur flóðs og fjöru getur verið nær 10 m og straumar allt að 5 hnútum þvert á róðrarleiðina.
Ég á Reeds sjómannaalmanakið fyrir 2015 en sjókortin á ég ekki. Það sem ég gerði var að skoða straumakort fyrir 12 klst tímabil á svæðinu og velja hvenær best væri að leggja af stað miðað við flóð í næstu viðmiðunarhöfn (St. Helier). Síðan vel ég mánuð og dag þar sem þessi hagstæði 'flóðtími' lendir snemma morguns í birtu og framhaldið eru straum- og stefnuþríhyrningar, einn fyrir hverja klst. Í minni lausn er lagt af stað 5. apríl kl. 07, áð í Sark eftir 5 tíma róður, komið við í Herm eftir 1,5 tíma, ferjað 45° upp í SV-fallið í klst. og komið í St. Peter-höfn kl. 5:15 og á kaffhús um fjögurleitið - allt á GMT en þarna mun þurfa að bæta við 1 klst fyrir sumartíma.
Hver ætlar að róa með