Hér á korkinum hefur aðeins verið spjallað um samfellukeipa, eins og Gísli HF nefnir slíka báta ágætlega, upp á síðkastið. Ég kynntist einmitt í fyrsta sinn svona bát núna í haust þegar Klepper bátur var með í för í vikulöngum kayak/skútuleiðangri sem ég tók þátt í uppi í Scoresby sundi.
Í stuttu máli var aðdragandinn þannig að mér samdist við Norðursiglingu sem hefur verið með skútuferðir þarna norður frá undanfarin fimm sumur að koma í eina ferð með kayaka og prófa hvernig er að vera með þá um borð og bjóða upp á stutta túra með farþega á milli borgarísjakanna. Úr þessu varð hið skemmtilegasta ævintýri.
Þarna prófaði ég bæði hefðbundna kayaka, en var sjálfur með einn tveggja manna Prijon kayak eins og klúbburinn á og einnig tvo Prijon Seayak báta. Það kom svo í ljós að einn af leiðangursmönnum átti Klepper bát og hefur notað hann mikið í ferðum og það varð úr að hann kom með hann í ferðina og þannig fékkst ágætis reynsla á að bera saman þessa tvo kosti.
Það var ansi mikill munur á umstanginu við að koma bátunum á staðinn eins og gefur að skilja. Ég þurfti að koma Prijon bátunum þremur norður til Húsavíkur um borð í skútuna í fyrstu ferð um miðjan júlí því ekki passa þeir í lestina á Fokkernum. 2 manna Klepperinn pakkast hins vegar í 3 töskur og er ca 30 kg og fór því með okkur með fluginu frá Reykjavíkurflugvellin án vandræða. Ekki tók langan tíma að setja hann saman og þetta var hinn vandaðasti gripur. Aðal gallinn við hann er þó að hann er engan veginn eins sterkur og Prijon togarinn, hvorki skrokkur né stýrisbúnaður, bakstuðningur og slíkt. Einnig hefði mér litist fremur illa á þennan bát í miklum vindi og öldu, hann liggur hátt og mannopið er stórt og róið með það opið að öllu jöfnu. Það kom þó ekki að sök þarna þar sem einungis var boðið upp á róður þá daga sem veður var gott sem og aðrar aðstæður.
Eitt af mörgu skemmtilegu þarna var að ég þurfti að éta ofan í mig að nokkru leyti áralanga fordóma mína á Prijon. Bátarnir reyndust þægilegir að ferðast í, grjótstöðugir og einfalt að stilla fyrir misstóra ræðara. Tek þó fram að það þurfti aldrei að róa í neinni öldu eða vindi að ráði og geri ráð fyrir að þá hefði ég saknað gamla Nordkapp.
Klepper eigandinn er Sigurjón Pétursson ljósmyndari og myndirnar hans úr ferðinni eru
hérna
.