Útför Sigurðar Karlssonar var gerð í gær.
Við Siggi málari urðum mestu mátar í nokkrum Breiðfjarðarferðum klúbbsins fyrir nær 10 árum. Hann var notalegur ferðafélagi og einstaklega skemmtilegur. Við vorum brosandi og hlæjandi meðan við rerum hlið við hlið langtímum saman.
Mörgum okkar er minnisstæð sumarferðin í Þyrilsey 2013. Ekki kom fram í ferðaskýrslu ársins 2013 sumt, sem ég á drögum en þar segir:
Þeir félagarnir Smári, Reynir og Siggi Karls ... óskuðu þess að svona léttri ferð um fallegt svæði yrði bætt við ferðaáætlun sumarsins. Siggi hefur misst heilsu og krafta undanfarið, en langaði eigi að síður til að fara í slíkan róður. Það má því segja að ferðin hafi verið farin til heiðurs og gleði fyrir Sigga Karls.
Þegar hópurinn hafðir róið frá Hvítanesi yfir á Þyrilsnes segir í drögum mínum:
Ég hafði á orði við Sigga að hann hefði klárað þenna legg með sóma. Hann svaraði með slíkum gálgahúmor að ég þori varla að hafa það eftir hér, en það var á þá leið að hann hefði "haft þetta með dauðateygjunum". Siggi hefur alltaf verið húmoristi og lætur ekki á sjá í því efni.
Þetta varð síðasti róður Sigga og vinir hans vissu að hann var þá orðinn þjáður af þeim sjúkdómi sem hann lést nú úr. Við rerum næst með landi í góðu veðri en þá gerðist nokkuð óvænt:
Þegar við komum svo að klettasnös einni mátti greina í fjarska að vindstrengur rótaði sjónum upp innan við Þyrilsey. Þóra (fremsti ræðari) stoppaði og leit á mig og hópurinn þéttist þarna við klettinn. Mér fannst öllu vera óhætt og gaf henni merki um að halda áfram en breytti ekki þeirri áætlun að fylgja landi. -- ..... þegar vindhviða barst niður af Þyrli yfir okkur eins og hendi væri veifað og ólgusvæðið, fyrir innan Þyrilsey, með hvítfextum vindöldum brunaði hratt til okkar. Það er mat mitt að þessi vindur hafi verið á bilinu 15-20 m/s í um 10 mín. .... Þannig hefði hópurinn aðeins átt eftir 5-10 mínútna róður að Þyrilsey í stilltu veðri en nú sá ég hvernig hópurinn tvístraðist.
Allt fór þetta vel, enda var helmingur hópsins vel þjálfaður til að geta aðstoðað aðra. Þeir félagar sýndu úr hverju þau voru gerð og stóðu sig með sóma við þessar óvæntu aðstæður.
Eftir á þykir mér afar vænt um að hafa stjórnað þessum róðri og mun minnast Sigga málara með þakklæti og hlýhug.