Ég hef hitt nokkra sterkar og hugrakkar konur í tengslum við róðurinn undanfarið.
Fyrsta konan gisti í farfuglaheimilinu (Bunkhouse) í Bellingham, nálægt Hexham í NA Englandi. Hún kom á hjóli frá Newcastle í rigningu til að gista og ég settist og ræddi við hana. Hún virtist vera eitthvað miður sín, hafði tekið sér frí frá spítala þar sem hún vann og var í hjólferð þvert yfir England. Næsta morgun fór ég snemma, en Hollenskur ræðari sagði mér að hún hefði virst vera grátandi þegar hún pakkaði á hjólið og hélt áfram. Ég get mér til að hún hafi verið að vinna sig út úr ástarsorg.
Næst var það önnur ung kona á sama stað. Við snæddum saman í stóra eldhúsinu, þar sem jafngott er að elda og að leysa verkefni í siglingafræði. Hún var hermaður, einbeitt og knáleg og hefði trúlega hvorki brugðið sér við sár né bana. Hlutverk hennar var að lesa og túlka njósnamyndir sem drónar tóku í Afghanistan. Nú var hún að æfa sig fyrir eitthvert borgarmaraþon og hljóp tugi km um heiðarnar þarna daglega og einnig umhverfis Kielder vatnið.
Þriðja konan, Jaqueline, kanadísk ævintýrakona, stóð sig vel í ferð í Djúpinu í sumar í slæmu veðri og var veik og með hita einn sólarhringinn. Næstu nótt rerum við í hvalablástri og hún var alsæl og vildi svo fá aukaróður þegar hinir þurftu að hvíla sig.
Fjórða konan, Angela, var með okkur Magga og Gabriel að kenna Keilverjum heila viku í nágrenni Stykkishólms. Hún var bæði öflug í róðri og góður bóklegur kennari og svo ágætur félagi, sem setti það ekki fyrir sig að sofa í sama herbergi og við karlarnir.
Fimmta konan var svo frá Chicago og var í Skye um leið og ég í 5 stjörnu dæminu. Hún náði prófinu með sóma. Á æfingu varð hún býsna grimm þegar einhver ‚karlremban‘ taldi sig vita betur á meðan hún var ‚leader‘. Við vorum í sama B&B og við matborðið sagði hún okkur að starf hennar felst í því að vera með malbiksgangstera og krimma á betrunarvegi úti í náttúrunni, skógi, fjöllum og róðri.
PS Ekki biðja mig að skrifa ævisöguna