Við sem erum vön að vera í þurrgöllum og hlýjum undirfötum höfum ekki alltaf skilið þá miklu áherslu sem kennarar og prófdómarar leggja á að við náum manni fljótt upp úr sjónum. Það getur samt verið mjög mikilvægt, því að við vitum ekki alltaf hvernig viðkomandi er klæddur fyrir kalt vatn. Okkur finnst oft bara fjör og notalegt að veltast um í sjónum og tökum jafnvel tíma til að spá í bestu vinnubrögðin meðan félagi okkar er á sundi - en erlendis er algengara að ræðarar klæðist léttari fötum og þá skiptir hver minúta máli.
Hér eru tvær stuttar sögur frá mér:
Einn nemandinn sem var hjá mér í sumar, fór á sund við æfingu sem reyndi á jafnvægið. Hún skrækti og saup hveljur. Ég kallaði: "Ingibjörg, slakaðu á,
þú ert í þurrgalla!." Þegar við fórum í matarpásu, þurfti hún að vinda undirfötin, "þurrgallinn" lak út um allt og skálmarnar voru fullar af sjó þegar í land kom.
Annað sinni var ég með með stutta æfingu að vori í köldum sjó, fyrir mann á miðjum aldri og konu hans. Lilja var með mér enda vorum við skammt frá Eiðinu í góðu veðri. Karlinn valt og lenti á sundi við að æfa stuðningsáratök, sem er ekki óalgengt, og ég taldi það fínt tækifæri til að kenna honum félagabjörgun. Hann fór ekki rétt upp úr vatninu (fannst mér) og ég rak hann út í aftur og í byrjunarstöðu við stefnið hjá mér. Hann skalf eitthvað og var reyndar ekki orðinn blár, en vel hvítur í framan.
Eftir tímann þegar Lilja ávítaði mig fyrir tillitsleysið og ég afsakaði mig með því að hann væri í löggunni og ætti að þola talsvert, rann upp fyrir mér að hann hafði bara verið í gallabuxum og jakka