Mér datt í hug fyrir stuttu að skoða Gorvík (neðan við Korpúlfsstaði og golfvöllinn) á korti á vefsíðu Landmælinga Íslands (LMI.is) . Þá finnst ekki lengur hið ágæta kort sem var kallað "Örnefnasjá", en er vísað á nýrra kort sem heitir Kortasjá:
atlas.lmi.is/kortasja/
Þar vantar enn mörg heiti sem við þekkjum úr nágrenni Geldinganess og hafði ég því samband við Rannveigu hjá Landmælingum.
Hún safnar örnefnum frá heimildarmönnum, sem geta verið fræðimenn, staðkunnugir, eldri bændur eða aðrir. Besta heimildin sem við vitum um yfir "okkar svæði" er unnin um 1985 af Guðlaugi R. Guðmundssyni og má sjá þau kort og örnefni í 4. bindi ritsins
Reykjavík Sögustaður vð Sund. Þar eru Geldinganes, Viðey og Engey, en ekki Þerney eða Lundey, enda hafa þær væntanlega ekki verið hluti af Reykjavík á þeim tíma.
Ég hvet þá sem eiga eða geta nálgast ritið, til að skoða þessi kort. Það væri ánægjulegt ef við lærðum helstu örnefnin og gætum notað þau í róðraskýrslum. Þetta nýja kort Landmælinga er aðeins uppfært tvisvar árlega en Rannveig segir í pósti til mín:
"Við höldum áfram með þetta Reykjavíkurverkefni á nýju ári.
Svo heyri ég frá þér ef þið hafið nákvæmari staðsetningu eða viðbætur."
Það sem við getum gert er að skoða merkingar og bera saman við fjöruna sem við þekkjum svo vel, til að fá hugsanlega fram nákvæma staðsetningu, þegar þysjað er inn á staðinn á kortinu. Við gætum einnig sent línu til LMI og hvatt þá til að koma þessum nöfnum inn í næstu uppfærslu, enda séu margir sem noti þetta svæði til róðra og útivistar.