Það er rétt.
Eftir hæga ferð undan austan 5 m/s vindi frá Blikastaðakró við ós Korpu vestur í 'Veltuvík', fórum við fyrir Réttarnesið og 'Öxlina' og héldum vestur með Geldinganesi og síðan inn Eiðsvíkina til baka.
Samkvæmt örnefnakorti LMÍ komumst við aldrei inn í sjálfan Leiruvog, þótt við færum fram hjá Leirvogshólma. Á því korti má sjá að Leiruvogur er talinn ná út að grynningum sem við sjáum stöku sinnum brjóta á við fjöru, aðeins innan við Gunnunesið. Þegar straumur er stór er gaman að róa inn yfir leirurnar alveg inn að flugvelli, jafnvel upp ósa Leirvogsár að Fitjum þar sem Smári félagi okkar býr eða undir reiðbrú Köldukvíslar.
Þrátt fyrir öll þessi heiti þá vissi ég varla hvar ég var í birtunni og blíðunni, 'tíminn týndist' við notalegar samræður á íslensku, ensku og þýsku, en hvorki gat ég boðið Gabriel frönsku né Mandarín kínversku sem hann talar.
Það er ánægjulegt að hafa þetta unga fólk úr HÍ með, meðalaldur í klúbbróðri lækkar verulega og á næstu vikum held ég að slegist verði um þessa 4-5 klúbbbáta sem hægt er að nota.