Línan úr Þórsmerkurljóði hljómaði innra með mér í gær þegar ég fór í róður í vorblíðunni.
Birta, blíða, sól, andvari, friðsælt fuglalif og að týnast svo í sólsetrinu.
Það kann að vera gott fyrir aðra sem eru á miðjum aldri að heyra að gömlum ræðara getur þótt tilveran dásamleg, þegar tímabil tilhugalífsins sem Sigurður Þórarinsson orti um, er fyrir löngu að baki. Það er jafnvel gott að finna þreytuna og verkja í vöðvana og hlakka til að fá hressingu og hvíla sig - það er lífið.
Loks er ég einlæglega þakkláttur fyrir að vera ekki í pólitík!
Leiðin lá um Álfsnes, Kjalarnes, Akurey, Sólfarið og til baka, 29,3 km. Slóðin yfiir flóann er nokkuð löng og fyrir opnu hafi og liggur yfir siglingaleið. Akurey sést illa við sjávarmál frá Kjalarnesi, en þá er best að koma auga á Keili og Gróttuvita, þar á milli er Valhúsahæð og þrýhyrnt þak Seltjarnarneskirkju ber við himin. Stefnan á kirkjuna liggur yfir rifið austan í Akurey þar sem gott er að rétta úr sér. Það versta við þennan legg er skipaumferðin, og hef ég lent í kvíðvænlegum aðstæðum þegar stórt skip hefur stefnt á mig svo að freyddi um stefnið og verið í beygju þannig að erfitt var að meta hvar leiðir skærust. Þá skyndilega hætti að freyða um stefnið, en það mun vera skylda að hægja á þarna fyrir vestan og ég slapp með skrekkinn.
Að lokum þetta:
Það væri gaman ef einhver með meira "æskuþrek" mundi toppa mig með því róa legginn beint frá Kjalarnesi að Gróttuvita. Þó verð ég að segja: Farið að öllu með gát og fyrirhyggju.