"Er'ekki tilveran dásamleg"

07 apr 2016 19:23 #1 by Gíslihf
Takk fyrir þetta Ingi - þú þekkir svæðið og siglingareglurnar.

Ég reri yfir siglingaleiðina frá Lundey að Engey nýlega.
Þá sá ég einhvern lítinn gráan blett úti á flóanum í fjarska.
Það liðu líklega um 20 mínútur og ég var kominn langleiðina þegar ljóst var að þetta var varðskip og nálgaðist óðfluga.
Þá sló varðskipið af milli baujanna norðan við Akurey.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 apr 2016 14:58 #2 by Ingi
Replied by Ingi on topic "Er'ekki tilveran dásamleg"
Svaka róður hjá þér Gísli. Við erum mjög heppin með róðrarsvæði á sundunum við Reykjavík. En ég forðast að róa þar sem að skipaumferð er líkleg. Eitt gott ráð þegar að skip mætast er að athuga hvort að miðun breytist miðað við óbreyttan hraða og stefnu. Ef miðunin er óbreytt þá er árekstur óumflýjanlegur. Við róum yfirleitt með það hægum hraða að það er lítið mál að stoppa og bíða eftir að skipið er komið framhjá í öruggri fjarlægð. Annað mál er þegar hraðbátar eða hraðfiskibátar eru á ferð. Þá er, eins og stundum í umferðinni, einhver við stjórnvölinn kannski í símanum eða með hugann við annað en aksturinn. Ég er nokkuð viss um að enginn á von á ræðara úti á miðjum flóa svo að ég forðast það líka. Reykjavíkurhöfn er með vakt á rás 12 og 16. Allir sem eru að róa þar sem einhver umferð getur truflað góðan róður ættu að hafa VHF stöð og kveikt á henni.
kv
Ingi

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 apr 2016 11:35 - 05 apr 2016 11:36 #3 by Gíslihf
Línan úr Þórsmerkurljóði hljómaði innra með mér í gær þegar ég fór í róður í vorblíðunni.
Birta, blíða, sól, andvari, friðsælt fuglalif og að týnast svo í sólsetrinu.

Það kann að vera gott fyrir aðra sem eru á miðjum aldri að heyra að gömlum ræðara getur þótt tilveran dásamleg, þegar tímabil tilhugalífsins sem Sigurður Þórarinsson orti um, er fyrir löngu að baki. Það er jafnvel gott að finna þreytuna og verkja í vöðvana og hlakka til að fá hressingu og hvíla sig - það er lífið.
Loks er ég einlæglega þakkláttur fyrir að vera ekki í pólitík!

Leiðin lá um Álfsnes, Kjalarnes, Akurey, Sólfarið og til baka, 29,3 km. Slóðin yfiir flóann er nokkuð löng og fyrir opnu hafi og liggur yfir siglingaleið. Akurey sést illa við sjávarmál frá Kjalarnesi, en þá er best að koma auga á Keili og Gróttuvita, þar á milli er Valhúsahæð og þrýhyrnt þak Seltjarnarneskirkju ber við himin. Stefnan á kirkjuna liggur yfir rifið austan í Akurey þar sem gott er að rétta úr sér. Það versta við þennan legg er skipaumferðin, og hef ég lent í kvíðvænlegum aðstæðum þegar stórt skip hefur stefnt á mig svo að freyddi um stefnið og verið í beygju þannig að erfitt var að meta hvar leiðir skærust. Þá skyndilega hætti að freyða um stefnið, en það mun vera skylda að hægja á þarna fyrir vestan og ég slapp með skrekkinn.

Að lokum þetta:
Það væri gaman ef einhver með meira "æskuþrek" mundi toppa mig með því róa legginn beint frá Kjalarnesi að Gróttuvita. Þó verð ég að segja: Farið að öllu með gát og fyrirhyggju.




Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum