Heilir og sælir félagar.
Nú er Hörpuróðurinn framundan, á Sjómannadaginn eins og ávallt áður. Þetta er sá atburður, sem gerir okkur hvað sýnilegust og er þá hvað mesta auglýsingin fyrir kayaksportið vegna róðrarstaðar og fjölmennis við höfnina. Erfiðleikastig þessarar ferðar er ein ár, sem sagt gerst ekki léttara. Það verður stórstraumsfjara kl.: 12:24, hálfskýjað og hægur SSV við Sundin blá. Minni aftur á sólgleraugun. Leiðin á milli Skarfakletts og Danielsslipps er 5 km og því 10 km og fram og til baka.
Mæting verður við Skarfaklett kl. 12:00 og rennt á flot kl. 12:30. Skarfaklettur er við aðstöðu Viðeyjarferjunnar, vestast í Sundahöfninni. Fyrir þá, sem ekki hafa tekið þátt í Hörpuróðri áður, þá fer hann þannig fram að róið er með ströndinni, Laugarnesinu, Rauðarárvíkinni og Skúlagötunni inn í Reykjavíkurhöfn. Þar er róið um, skoðuð skip og skútur, þar til endað er í vikinu við Sjóminjasafnið, þar sem áður var Daníelsslippur, um kl. 14:00. Gott kaffistopp verður svo áður en róið er til baka og komið að Skarfakletti um kl. 16.
Minni ykkur á að vera ekki nærri skipum, sem fara um höfnina, því skipstjórnarmenn eru óhressir með að hafa þessar smáfleytur okkar nærri sér, þegar þeir eru á ferð.
Svo eru alltaf einhverjir sem taka þetta alla leið, sjósetja í Geldinganesinu og enda þar líka. Það má.
Bjarni Kr.
S.:894-6986