Þórsmörk - Vestmannaeyjar

18 jún 2017 19:51 - 18 jún 2017 19:52 #1 by eymi
Replied by eymi on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
Þetta var frábær ferð í alla staði, þrátt fyrir smá skell í byrjun, sjólagið var mjög skemmtilegt og í raun fært öllum þokkalegum kayakræðurum. Skellurinn þarna í upphafi var í raun bara klaufaskapur og fljótfærni sem maður lærði mikið af. Í fyrsta lagi leit allt mjög sakleysislega út en þó var ég búinn að sjá stóra öldu brotna þarna þegar við vorum að lesta bátana en hugsaði ekkert meira út í það fyrr en of seint. Þegar við komum niður að ósnum létum við okkur bara vaða af stað, enda leit allt vel út, en auðvitað átti maður að staldra aðeins við og telja öldurnar og sjá hvað væri í gangi :). Ég var svo óheppinn að lenda beint í flasið á þeirri stóru, varla búinn að koma mér almennilega fyrir í bátunm. Þegar ég sá hana koma ákvað ég að bíða þannig að hún brotnaði fyrir framan mig, en ég feilreiknaði mig þar sem ég reiknaði ekki með straumnum sem bar mig á móti henni og hún hreinlega henti mér í loft upp og ég sveif í stórum boga aftur fyrir mig og lenti á hvolfi. Þegar ég fór að reyna veltuna var ég strax algjörlega súrefnislaus og endaði á sundi.
Þannig að lærdómurinn af þessu var að maður á aldrei að vanmeta aðstæður, anda með nefinu, telja öldurnar og taka svo ákvörðun. Málið var að það voru ábyggilega um 5 - 10 mínútur milli þessara stóru svo það var auðveldlega hægt að komast hjá þessu :).

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 jún 2017 10:33 - 14 jún 2017 10:34 #2 by Ingi
Replied by Ingi on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
það er alltaf gaman ef sagan endar vel. ég ætla samt að benda þeim á sem að hafa hugsað sér að róa þar sem að straumþung á rennur í sjóinn að hafa sjávarföll og veður til hliðsjónar. þetta er alltí lagi þegar aðstæður eru góðar rétt fyrir háflóð og úthafsaldan ekki mjög stór. en eins og dæmin sanna þá er góð hugmynd fljót að verða slæm þegar ekki er hugað að nokkrum grunnatriðum. ég bendi þeim sem ætla að róa við suðurströnd landsins á öldumælingar við Landeyjahöfn og reiknilíkan samgöngustofu af þessu svæði sem Andri og Eymi reru.:
www.vegagerdin.is/vs/LandeyjarMyndir/Default.aspx?startPlace=0
kv

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

13 jún 2017 18:46 - 13 jún 2017 18:49 #3 by Gíslihf
Tek undir það að þetta er góð og áhugaverð frásögn. Svo væri forvitnilegt að heyra frá Eyma hvernig þetta heljarstökk var og fá að "sjá" það hægt eins og maður sér þegar maður er að festa svefn eftir slíka reynslu :ohmy: Það má kalla þetta brautryðjendaferð og um að gera að læra sem mest af henni. Síðan mætti skipuleggja slíka ferð sem yrði þá öruggari og eitthvað léttari. Öll byrjun er erfið og miðað við frásögn og aðra reynslu má sjá eftirfarandi:
  • sjókajakar úr plasti af styttri gerðinni henta best
  • best að hafa þá létta niður árnar
  • skoða betur hvernig Krossá greinist í lænur
  • æskilegt að fara þegar mikið er í Krossá og Markarfljóti
  • velja daga þegar brim er í minna lagi við ströndina
  • betra að fara út úr ósnum á flóði, en þarf þó að kanna betur
  • nota má strauminn út en lítið má útaf bregða
Ef ég skil Andra rétt þá bar straumurinn Eyma út fyrir mesta brimið. Ég kynntist þessu við Kúðafljót og víðar, árnar halda áfram langt út fyrir ströndina, ef maður svamlar í sjónum berst hann með straumnum og ef vindur er ber hann kajakinn jafnvel út úr straumnum og út í brimið til hliðar við útfallið. Eitthvað af þessu hefur líklega verið að verki við ós Þjórsár þegar maður fórst þar nýlega en við höfum ekki fengið upplýsingar um það.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

13 jún 2017 00:50 #4 by Orsi
Replied by Orsi on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
TIl hamingju þið allir og sérstaklega formaður vor að veita þessu forstöðu. Frábær lesning frá upphafi til enda. Frábær alveg. Til hamingju aftur!
The following user(s) said Thank You: Andri

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 jún 2017 21:23 - 12 jún 2017 23:13 #5 by Andri
Replied by Andri on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
Þetta hafðist. Maggi útvegaði tvo auka plast Romany og við fórum þrír fyrsta legg á föstudagskvöldinu, ég, Bjössi og Tobbi. Við skildum bíl eftir við gömlu Markarfljótsbrúnna en fórum svo upp í Bása þar sem var sett á flot. Fyrsti leggur var 30km og vegna þess að ég vissi ekki hvernig myndi ganga niður sandana tók ég allan viðlegubúnað með og báturinn var þ.a.l mjög þungur. Það gerði að verkum að nokkrum sinnum þurfti ég að standa upp og færa bátinn þegar ég rak upp á grynningar. Áin skiptist reglulega í tvennt og stundum þrennt og þá þurfti að meta mjög fljótt hvaða áll væri vatnsmestur því að þeir minni gætu helmingast neðar eða sameinast öðrum. Nokkrum sinnum tókum við ranga leið en sluppum við mikið basl, myndi samt ekki mæla með þessu fyrir valkvíðna :) Klukkan var orðinn hálftvö um nótt þegar við við komum að bílnum en þá áttum við eftir að keyra aftur uppí Bása, tjalda og grilla. Held að klukkan hafi verið orðin sex um morgun þegar ég lagðist á koddan eftir frábæran dag.



Á laugardaginn var sofið út en uppúr hádegi pökkuðum við saman og keyrðum niður að ós. Veðurspáin var slæm þannig að við höfðum ákveðið að róa ekki til eyja þann daginn en við vildum skoða brimið og það leit ekki vel út. Spáin fyrir sunnudaginn var mjög góð en Bjössi hafði ekki kost á að róa þá og ákvað að kalla þetta gott. Við Tobbi ákváðum að taka næsta legg niður að ósnum á laugardeginum og skildum bíl eftir við ósinn en Bjössi skutlaði okkur aftur að brúnni. Þarna niðurfrá er áin mun vatnsmeiri en þar sem við hófum ferðina og það var auðveldara að forðast strand á seinni kafla fljótsins. Talsverður straumur var við stólpa brúnna og meira að segja hægt að sörfa aðeins öldu við gömlu brúnna



Nálægt ósnum lá fullt af selum upp á sandinum og hef ég aldrei séð svona marga á einum stað. Urturnar voru með stálpaða kópa og hersingin fylgdi okkur alveg til leiðarenda. Brimið í ósnum var ógnvænlegt og það var auðveld ákvörðun að pakka saman og kalla þetta dag.



Þorbjörn fór heim á laugardagskvöldið en ég gisti í Fljótshlíð þar sem að fljölskylda og vinir voru í útilegu. Eymi hafði meldað sig með í róðurinn til Eyja og við hittumst á Hvolsvelli um kl 10 á sunnudagsmorgninum þar sem Eymi kom í minn bíl en hans fjölskylda sem var með í för fór yfir með Herjólfi. Frábært að hafa reynslubolta eins og Eyma með í svona ferð. Brimið leit mun betur út frá landi og veðurspáin var góð en það átti að hvessa seinna um daginn þannig að við þurftum að drífa okkur til að sleppa við hvassan mótvind á leiðinni. Við settum á flot á sama stað og ég hafði tekið upp daginn áður en það er örlítið ofan við ósinn. Straumurinn var þónokkur alveg út í sjó og þegar við komum nær sáum við að brimið var stærra en það hafði virst frá landi. Eymi var rétt á eftir mér og fyrir framan mig var alda sem reis óþægilega hátt en brotnaði áður en hún kom að mér. Ég komst í gegnum löðrið og sá að Eymi var á sínum stað líka. Þá réri ég eins hratt og ég gat til að komast yfir næstu öldu áður en hún brotnaði og hafði enn straum með mér. Loks kom aldan og stækkaði, og stækkaði og rétt áður en hún brotnaði krossbrá mér þegar selur stökk útúr öldunni beint í áttina að mér og við rákumst næstum því saman! Ég velti því fyrir mér hvort að þetta hafi verið leikur hjá selnum en þarna er mikið grugg útaf brimi blandað við jökulvatn en ég veit ekki hversu vel þeir sjá neðansjávar við svona aðstæður. Svona lagað hef ég aldrei séð áður en hafði ekki mikinn tíma til að hugsa um það því að sekúndu seinna fór aldan undir mig og brotnaði en ég datt fram af réttu megin við og lenti með stóru skvampi. Eymi var fyrir aftan mig og ég leit strax til baka en sá þá bátinn hans næstum lóðréttan allan á lofti. Aldan hafði brotnað á Eyma, keyrt hann í afturábak kollhnís og loftið í bátnum gerði það að verkum að hann skaust upp eins og ofvaxinn korktappi. Ég hef oft séð Eyma bjarga sér á veltu en held að í þetta skiptið hafi hann orðið flugveikur því hann losaði sig úr bátnum :) Vatnsflaumurinn bar okkur frá mestu brimsköflunum þannig að félagabjörgun var auðveld og eftir þetta óvænta ævintýri gátum við haldið áfram ferð okkar til Eyja. Sjólagið á leiðinni var mjög skemmtilegt, undiralda og smá vindur á móti en við héldum fínum ferðahraða. Við rérum á milli Bjarnareyjar og Elliðaeyjar og hægðum aðeins á ferðinni þegar við komum að eyjunum enda þurfti að mynda dýrðina og skoða vel. Eftir stutt stopp í helli sem ég hélt að héti Sönghellir en var tjáð í Vestmannaeyjum að héti Klettshellir, rérum við inn í höfnina, Þar kvaddi ég Eyma eftir frábæran dag og eftir smá snarl tók ég Herjólf til baka.



Þetta var virkilega skemmtileg ferð en plastbátur er alger nauðsyn í ánni ;)
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 maí 2017 11:21 #6 by Andri
Replied by Andri on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
Ég ætla á plast Romany og giska á að hann henti vel, en það á eftir að koma betur í ljós :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 maí 2017 11:11 #7 by Gíslihf
Ég spyr ekk af því ég geti verið með - en hvernig bátur mundi henta í svona leiðangur?

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

29 maí 2017 23:47 - 29 maí 2017 23:48 #8 by Andri
Replied by Andri on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
Veðrið klikkaði í fyrra þannig að ferðinni var frestað um amk ár.
Nýtt plan gerir ráð fyrir að leggja af stað austur síðdegis föstudaginn 9.júní og róa fyrsta legg þá um kvöldið og svo gist í tjaldi á sandinum. Leggur 2 yrði á laugardagsmorgun og mögulega farið til eyja seinnipart laugardags. Á sunnudaginn er hægt að róa um Vestmanneyjarm, fara beinustu leið heim með Herjólfi eða róa til baka. Ég á frekar von á félagsskap en að róa einn því að einhverjir hafa sagst hafa áhuga en svo verður bara að koma í ljós hvernig veðrið verður. Ef veðrið verður slæmt þá frestast aftur um ár en vonandi gengur þetta upp núna. Áhugasamir sem treysta sér með eru velkomnir.

Kv,
Andri

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 jún 2016 08:18 #9 by Jói Kojak
Þetta er báturinn ísvona mission.


www.phseakayaks.com/kayaks.php?kayak=Hammer

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 jún 2016 17:39 #10 by Andri
Replied by Andri on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
Ég á eftir að fara þessa ferð, vonandi sem allra fyrst. Planið er að fara á sjókayak alla leið, hann ætti að vera góður í fljótið en það á eftir að koma betur í ljós :) Verst að veðrið hafi klikkað en ég lét það ekki skemma fyrir mér helgina, skrapp í staðin í Ytri Rangá og það var geggjað ;)

Núna bíð ég eftir næsta tækifæri til að klára þetta mission.
The following user(s) said Thank You: gunnarsvanberg

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 jún 2016 07:43 #11 by Jói Kojak
Líst vel á þetta Andri. Hef oft hugsað um að taka bátinn með í Mörkina og róa úr Básunum - þar sem við erum oftast - og niður að gömlu Markarfljótsbrúnni.

Hvernig bát ætlarðu að nota? Sjó- eða straumbát? Væri held ég sniðugt að nota crossover bát með skegg - sérstaklega ef þú ætlar út í Eyjar.

Ég segi go :-)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 jún 2016 08:24 - 10 jún 2016 08:25 #12 by Andri
Replied by Andri on topic Þórsmörk - Vestmannaeyjar
Vindaspáin á laugardag og sunnudag við Vestmannaeyjar er 10-14 m/s á þeim tíma sem ég ætlaði að róa.
Talsvert brölt að komast til baka að sækja bíl í Þórsmörk fyrst að maður er einn á ferð og ég nenni því ekki fyrst að það er útlit fyrir að það verði bara fært niður fljótið.

Fresta ferðinni og reyni að finna betra tækifæri seinna til að klára þessa spennandi leið

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

06 jún 2016 13:08 #13 by Andri
Á föstudaginn ætla ég að leggja af stað í kayakferð sem ég er oft búinn að hugsa um, þ.e frá Þórsmörk til Vestmannaeyja á sjókayak.
Planið er að leggja af stað strax eftir vinnu á föstudag í Þórsmörk og róa af stað niður Krossá og Markarfljótið en gista á leiðinni. Vonandi klára ég sandana snemma á laugardagsmorgni og fer til eyja ef veður leyfir seinna sama dag. Þar væri hægt að velja um að róa til baka á sunnudeginum eða taka Herjólf til baka á laugardag og ná klúbbferð sem er skipulögð á sunnudag.

Ég var eitthvað búinn að láta þetta spyrjast út og myndi taka félagsskap fagnandi en get líka farið einn. Þetta er krefjandi leið og ekki á allra færi en áhugasamir sem treysta sér til geta haft samband og meldað sig með. Eins og staðan er núna þá veit ég af nokkrum áhugasömum en enginn hefur staðfest ennþá. Gott uppá skipulagið ef áhugasamir láta vita sem fyrst. Sendi ykkur svo ferðasögu.

Kv,
Andri

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum