Sunnudagur á sjó

14 ágú 2016 20:58 #1 by Ingi
Sunnudagur á sjó was created by Ingi
Það var byrjað að blása af suðaustri þegar ég kom í Geldinganesið eftir hádegið í dag. Spáin var ekki slæm. 8 metrar á sek sýndist mér og ákvað að taka stuttan en snarpan hring um nesið. Össur var á pallinum þegar ég renndi í hlað og sagðist hafa séð Lárus og Kollu ásamt Klöru og Þóru halda út að austan þegar hann kom. Ég var brattur eins og oft áður og sagði honum að leggja af stað og við myndum taka réttsælis hring um nesið og hitta hin sem sem kæmu á móti okkur. Össur lagði af stað og ég gallaði mig í rólegheitum og sjósetti og núllaði Garminn og lagði í hann. 9 til 10 km hraði loggaði á tækinu og ég var farinn að slá met í huganum.

Þegar ég kem að Pólverja nesi sé ég einhvern koma á móti mér og þegar nær dregur sé ég að þar er Kolla á ferð ein en ég þurfti bara að fara út fyrir Pólverjanesið til að sjá að Lárus, Þóra og Klara hinkruðu þar í skjóli fyrir vaxandi austanfræsingnum. "þú átt eftir að baxa á móti hinu megin við nesið " sagði Kolla um leið og ég þaut framhjá á yfir 10 km hraða. "Ég hef ekki tíma tilað tala við þig, ég er í tímatöku" svaraði ég andstuttur og hélt áfram á fullu. Við vesturenda Geldinganessins var alveg slétt og hraðinn var mjög fínn um og yfir 9 km. En það átti nú eftir að breytast. Tók hart í stjór við hornið á nesinu og fékk austanstorm í fangið. Sá í Össur ca 500 metra í stórsjó. Þetta fer í sögubækurnar hugsaði ég og gaf allt í botn. Inúkinn er frekar mjór að framan og það gefur honum fínan hraða í sléttum sjó en á móti þegar aldan er orðin meter þá fer hann að stinga sér ofan í ölduna og þá þýðir lítið að róa á fullu. Betra að slaka aðeins á og hægja soldið á.

Ég hitti Össur á Rómaný fyrir miðju á norðanverðu nesinu og við fylgdumst að sem betur fer í land. Það var allantíman vaxandi vindur og gott að hafa félaga sér við hlilð í verstu hryðjunum. Komutími var örlítið seinna en reiknað var með í upphafi en góður róður sem fer í reynslubankann. Það var ekki spurning að þetta voru kjöraðstæður fyrir Romany en mundu teljast krefjandi fyrir Inuk.

kv.
Ingi

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum