Eldriborgararóður

14 des 2016 20:16 - 18 des 2016 10:24 #1 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Eldriborgararóður
Ekki er ég nú lengur að berjast við ofurefli náttúrunnar við kayakróður - læt mér nægja hið hófstillta náttúrufar við svona iðju

Var á laugardaginn um og uppúr hádegi í blíðunni og skammdegisrökkrinu inni á Leiruvogi að sunnan.

Dólaði þetta um 6 km á innan við klst.

Ólíkt höfumst við að öldungarnir við sjósóknina -en sjósókn samt :)
Stemningsmynd af átökum dagsins
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 des 2016 11:17 - 14 des 2016 11:21 #2 by Gíslihf
Eldriborgararóður was created by Gíslihf
Ég fór í eldriborgararóður í gær í haustgolunni, í dyggri fylgd nokkurra félaga á besta aldri. Það voru þeir kapparnir Páll R., Valli, Þorbergur og Örlygur, en samanlagður vöðvamassi þeirra er varlega áætlað sjöfaldur minn (1+2+2+2).

Við Knútsvík, sem horfin er undir sorphauga og við Gufuneshöfða mátti það vera hverjum þeim ljóst sem var að viðra hundinn sinn á göngubrautinni að þarna reru vistmenn af elliheimili ef marka mátti lítinn framhraða keipa þeirra, en hundaviðrari hefði þó vart mátt líta upp frá því að verja grey sitt því að hefjast á loft í golunni og feykjast yfir Elliðaárvog út í Kleppsvíkina sem reyndar er horfin undir Samskipahöfn.

Örlygur stefndi okkur til kirkju innst í Grafarvogi, en þar eð enginn beið okkar þar hempuklæddur við fjöru snerum við sæfákum okkar snúðugt undan vindi og hleyptum þeim á skeið undir Gullinbrú.

Lilja mín segir mig hafa sofnað með stunum og umli en ég vissi ekki af því.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum