Verklagsreglur og markmið

22 des 2016 22:46 - 22 des 2016 22:54 #1 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Verklagsreglur og markmið
Takk fyrir innleggið Örlygur.

PS: Ég breyti heiti efnisins, finnst verklagsregla vera betra en regla hér.

Hér eru tvær minningar sem snerta efnið - og umræðu:

1. Við vorum í klúbbferð utan við Ytri Njarðvík, það bætti í vind og einn ágætur félagi okkar (nr.1) valt. Við vorum tveir vanir (ég og nr.2) sem náðum saman með lítt áberandi merkjamáli. Ég skyldi hraða mér til að tryggja óvanan ræðara (nr.3) sem var aðeins á undan okkur og fylgja henni í hlé við kletta. Við það reri ég fram hjá félaga nr.1, sem tróð marvaðann við bát sinn. Hann upplifði mikla höfnun þegar ég bara vinkaði honum og hann horfði á eftir mér. Hann þurfti þó ekki að bíða meira en um mínútu þar til félagi nr. 2 var kominn að honum til að gera félagabjörgun. Það tafðist all nokkuð því að þeir tókust á um aðferðina, félagi nr. 1 aðeins með höfuð uppúr sjó og félagi nr. 2 sem sat óhagganlegur við keip sinn í sjókeip sínum :woohoo: Félagi 1 vildi upp milli báta, félagi 2 vildi fá hann upp utan við báta. Á eftir sagði félagi 1 að það væri ekki góð sálfræði að kenna manni í neyð nýja aðferð við að láta bjarga sér - sem er örugglega rétt - ef unnt er að komast hjá því.

2. Við Palli R vorum í 4ra stjörnu prófi, hann var við stjórn og valdi mig sem aðstoðarmann þegar keipur Rabba Ísfirðings sökk að aftan, en prófdómari hafði af hrekkvísi sinni stolið dekklúgunni og látið sjó fara í afturlestina. Þegar kajakinn stóð eins og spíra með framendann beint upp í loft var Rabbi kominn á sund. Við vorkenndum honum ekki, hraustur maður og í þurrgalla og hafði gaman af vosbúð - en af reynsluleysi okkar héldum við að prófdómari liti eins á málið! Við létum Rabba því svamla um meðan við tæmdum bát hans, sem ekki er létt ef þið hafið reynt slíka aðgerð. Við fundum plastpoka og snæri og bjuggum þannig til lok yfir afturlest og vorum nokkuð hreyknir af ráðsnilld okkar. Siðan fórum við að svipast um eftir Rabba og vorum þá ekki lengi að koma honum í sætið á ný. Þetta var dæmt sem slæmt fallatriði - ég var heppinn, en Palli ekki, hann var við stjórn, en ég var alveg jafn grunlaus um að við værum að gera slæm mistök - enda var viðgerð þokkalega vel heppnuð og félagabjörgun fumlaus og skv. verklagsreglum sem við kunnum :ohmy:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

22 des 2016 22:06 - 22 des 2016 22:10 #2 by Orsi
Replied by Orsi on topic Reglur og markmið
Auðvitað þarf að skoða aðrar aðferðir, ekki spurning. Það segir sig sjálft að kennivaldið - sem gefur út leiðbeinandi reglur um þetta allt - skoðar aðrar aðferðir. Annars væru aldrei neinar breytingar. Þannig að svarið við fyrri spurningunni er jú. Góð aðferð - sem núverandi aðferð vissulega er - er ekki góð nema hún standist gagnrýna skoðun reglulega, en það að hún sé góð leiðir ekki sjálfkrafa til þess að hlífa skuli henni við samkeppni. Ef aðferðin gæti talað þá segði hún EKKI hlífa mér. Varðandi seinni spurninguna, þá ætla ég ekki að flana að neinu þar. Tökum því rólega.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

22 des 2016 15:42 - 22 des 2016 22:56 #3 by Gíslihf
Við kennum félagabjörgun nú með öðru lagi en gerðist fyrir 10 árum. Þá var maður í sjó tekinn upp á milli báta, nú er bátur sundmanns hafður milli hans og björgunarmanns. Við kennum þannig og lærum verklag, sem er sett saman úr nákvæmri röð þátta, þar sem allt skal fara eftir lærðu ferli og handbragði. Það getur jafnvel valdið óægilegri tilfinningu ef út af bregður, tilfinningu um að hafa mistekist. Þetta mætti nefna tæknihyggju. Það, sem við höfum lært þannig og æft í þaula, gengur oftast hratt og örugglega.
1. Þarf þá ekkert að hugsa meira eða skoða aðrar aðferðir?

Hugum nú fremur að markmiðinu, sem er (1) fyrst og fremst að koma manni fljótt og örugglega upp úr köldum sjó og næsta markmið er (2) að hann geti sest í tæmdan bát, komið svuntunni á og fengið ár í hönd, þriðja markmið er (3) að hann geti róið sjálfur áfram. Aðstæður geta verið þannig að snjallara sé að breyta út af lærða verklaginu til þess að ná markmiðum fljótt og örugglega. Þetta er að hafa grundvallarsjónarmið að leiðarljósi.
Hver er þá niðurstaðan?
2. Á ekki að kenna besta viðurkennda verklagið?

PS - ekki bíða eftir að ég svari mér sjálfur :unsure:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum