Jólasaga úr Akureyjum fyrir réttum 174 árum

23 des 2016 08:37 #1 by Sveinn Muller
Kayak klúbburinn fór í helgarferð út í Akureyjar núna í ágúst, nýlega rakst ég á þessa ótrúlegu jólasögu úr eyjunni fyrir 174 árum og mátti til með að deila henni.

Báta og matarlausir dögum saman
Á Þorláksmessu jólin 1842 voru tveir menn, Stefán Bjarnason og Stefán Eggertsson, bát- og matarlausir dögum saman á Fagurey. Ætluðu þeir að ganga á ís frá Akureyjum undan Skarðsströnd til lands til að vera þar yfir jólin en sundið leggur oft í vetrarhörkum. Ísin tók að leysast í sundur og bárust þeir á ís inn með röstinni, kvarnaðist úr ísnum er hann rakst á aðra jaka og hringsnérist hvað eftir annað. Komust þeir loks í Fagurey sem liggur undir Fagradal Innri, hálfa viku sjávar undan landi (hálf vika sjávar er um 4km). Tveir hundar voru með þeim, náði annar að komast á eftir þeim í land, hinn fórst í straumnum.
Harðfenni og klaki var um alla eyjuna og voru þeir þarna nestislausir og heldur illa búnir. Hlóðu þeir veggi úr smájökum upp við stein og þunnan jaka í hurðarstað. Mikil þrengsli voru og urðu þeir að sofa sitjandi og halla sér hvor upp að öðrum, hundurinn Svipur lá á fótum húsbónda sína og hlýjaði honum. Blés á þá í gegnum óþétta veggina. Reyndu þeir að kalla yfir í Fagradal en fengu engin viðbrögð. Hungur tók að sverfa að, vissu þeir að hvönn óx á eynni og náðu að pjakka upp nokkrar hvannarætur. Voru þeir farnir að vera mjög uggandi um hag sinn og tók Stefán Eggerts að skera hinstu kveðju út í göngustaf er hann hafði meðferðis. Það var farið að ganga all nærri Stefáni Bjarnasyni enda átti hann lakari nætur og fékk ekki hlýju af hundinum Svip, var hann farinn að liggja meira og minna fyrir á 3ja degi. Á þriðja í jólum, eftir fjögurra daga dvöl tók húsfreyjan í Innri-Fagradal, Helga Sigmundsóttir, sjónauka sem þau áttu og var að hreynsa móðu af glerinu, gengur hún út á hlað með kíkirinn og horfir fyrir tilviljun yfir á Fagurey, þar sér hún hreyfingu 2ja manna og verður eðlilega bilt við. Var strax settur út bátur og tóku þeir með sér spenvolga mjólk. Var þeim báum bjargað snarlega. Styðja þurfti Stefán Bjarnason til lands. Þeir hresstust á nokkrum dögum og komust aftur heim til Akureyja. Vissi fólk þar ekki annað en þeir hefðu verið í góðu yfirlæti í landi og brá mjög við þessar fréttir.

Heimild: Öldin sem leið, minnisverð tíðindi 1801-1860 s. 133-136.
The following user(s) said Thank You: Gunni, gsk, helgia

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum