Í dag var boðið upp á vestanátt og djúpa undiröldu eins og hafði verið spáð og úr varð vetraróður eins og þeir gerast bestir við krefjandi og skemmtilegar aðstæður.
Þátttakendur voru: Andri, Gunnar Ingi, Guðni Páll, Ingi, Sveinn Muller, Kiddi, Klara, Hörður, Örlygur og Valli. Fyrst var róið í kröftugum mótvind og snjókomu á köflum að Fjósaklettum og eftir smá sörfæfingar var farið inn í Viðeyjarsund. Þar var snúið við og stefnan tekin á Fjósaklettana aftur. Þegar komið var að Fjósaklettum í seinna skiptið hafði veðrið batnað og aldan orðið mun brúklegri til brimreiðar. Hópurinn stoppaði þar og ræðarar skiptust á að sitja öldurnar með frjálsri aðferð, áfram, afturábak, á hlið og jafnvel lóðrétt. Flestir lentu á einhverjum tímapunkti á hvolfi og þarna sáust flestar þær aðferðir sem ég þekki við að komast á réttan kjöl, s.s velta, kúrekastíllinn, hefðbundin félagabjörgun og fleiri útgáfur. Stórskemmtilegur róður og ég býst við að það leki sjór úr nefinu á mér það sem eftir lifir dags. Þakka fyrir mig.
Kv,
Andri