Kennarastigið (Coach Moderate Water - Sea) sem ég var að koma frá gekk vel. Mér var boðið í þjáfunaradaga á undan og kom það sér vel, því að áherslurnar hjá þessum kennurum eru nokkuð ólíkar. Sérstaklega vel kom sér svo að hafa fengist við vind og öldu í Gróttuæfingum og þakka ég þeim sem tóku þátt og Guðna Páli, Sveini Axel og öðrum sem komu til aðstoðar, reynslan nýttist þegar ég var í prófinu í 2ja metra ölduhæð.
Sumir telja að þegar maður kynnist nýju fólki vegi fyrstu áhrifin þungt og ef svo er þá var ég heppinn. Við vorum þrjú fyrri tvo þjálfunardagana með Steve Banks kennara og vindur og sjólag voru það erfið að við notuðum höfnina í Whithaven, hafnarmynnið út og inn og við hafnargarða fyrir æfingar. Þegar við ætluðum á sjó fyrsta morgun í hnullungafjöru með ölduhæð um 1m svipað og var í sandinum við Gróttu, greip kennarinn um skutinn til að styðja mig er ég setti svuntuna á og svo ýta mér út - svona eins og maður gerir við óvana eða eldri karla
- Ég leit upp og sá óvænt inn í græna og hvíthærða 2-3 m háa öldu. Ég held kennarinn hafi hlaupið undan öldunni langt upp fjöruna, Valley AnasAcuta sem ég sat í stakk nefinu inn í en svo reis hún og rann aftur á bak, ég á hliðina í froðu, velti mér upp, næsta sem ég man er þungt högg á bringuna og sjórinn keyrði mig niður á afturdekkið. Þegar ég gat rétt mig upp var Acutan með hægri hlið á hraðferð upp í fjöru en ég gat lagst á hliðina, snúið upp í og komist út. Þetta gerðist hratt eins og við vitum, ekki möguleiki að hugsa sig um.
"Þetta var vel gert!" sagði Steve á eftir - hann bað mig ekki eftir þetta um neitt annað til að sýna færni - hann var greinilega búinn að haka við þann pakka hjá þessum karli - og ræddi aðeins um hvernig hann vill að menn kenni. Sjálfur veit ég um eitt og annað sem er ekki skothelt hjá mér og því segi ég að þarna var ég heppinn