Síðbúnar fréttir af félagsróðri 5. maí.
Allir sem sjósettu við Eiðið þennan morgun héldu hópinn þar til komið var að fyrirhuguðu 3* æfingasvæði í Syðri Eiðisvík. Þar skildu leiðir og héldum við fjögur, Klara, Gunnar Ingi, Gummi B og undirritaður, áfram Viðeyjarhring. Nokkur strekkingur af vestri myndaði alveg hæfilegan ölduslátt við vesturenda eyjarinnar, þannig að nokkurt "hoppirí" fékkst þar og síðan tók við ágætis lens í höfuðstöðvarnar. Enginn missti árar úr höndum sér, né nokkurt annað, enda allur plastúrgangur við ströndina látinn eiga sig í þetta sinn.
P.S. Veðurspá gekk eftir, með vaxandi vindi og éljabökkum skammt undan. Þó var vindstyrkur líklega heldur minni en ráða mátti af vef Veðurstofunnar.
P.S.S. Orðið "hoppirí" hefur hinn orðhagi Örlygur notað á korkinum áður og lýsir því þegar kajakarnir hoppa og skoppa um krappa öldudali og toppa. Í vöntun á betra og jafn knöppu orði yfir þessar tilteknu róðraraðstæður leyfi ég mér að nýta það.