Örsi - fagnið heyrðist upp á pall þar sem við Eymi vorum að spjalla og áttum okkur einkis ills von
Annars var allt þetta námskeið og próf góð reynsla fyrir nemendur, mig og aðra sem voru með í verkefninu. Gott er að læra af góðum kennara, sem í þessu tilviki var Steve Banks og sem ég fann upphaflega gegnum BCU þegar ég var að leita að tiltekinni þjálfum og sá fljótt að fleiri myndu kunna vel að meta kennslu hans.
Þegar ég ber saman þjálfun okkar og kröfur hjá Steve/BC sé ég að við höfum farið nokkuð lengra í mörgum þáttum, en að gott væri að æfa fleiri aðferðir við félagabjarganir. Veltan, hástuðningur og Eskimóabjörgun voru veikir punktar, sem mér þykir leitt. Stór þáttur í því er aðgengið að sundlaugaæfingum, sem hefur verið of lítið í vetur og ekki hægt að treysta á. Þar var því hver og einn á eigin vegum, en sumir náðu góðum framförum á lokametrunum sem er aðdáunarvert. BC gerir aðeins kröfu um að ná einni veltu í prófi og það getur gengið hjá einum en ekki næst eða mistekist hjá öðrum sem nær veltunni svo viku síðar.
Það er leitt að vera 3ja stjörnu ræðari og vera kvíðinn að lenda á hvolfi, Er þá ekki næsta skref hjá okkur að vinna meira í öruggum björgunum, sjálfsbjörgun og veltum við ólík skilyrði? Þetta með veltuna er áhugavert efni. Hvernig á að læra og kenna veltu og hvernig skilar námið sér best við nýjar aðstæður. Þegar ég var úti hjá Steve ræddum við að velta í sundlaug er góðra gjalda verð, en að yfirfæra þá færni í umhverfi með köldum sjó og straum eða öldum er ný færni eða færni á hærra stigi sem á einhvern hátt þarf að læra upp á nýtt.
Ef við erum vel gölluð og með góðum félögum þá ætti þetta bara að vera skemmtilegt.