Alls hafa um 50 byrjendur verið á námskeiðum hjá mér þegar tímabilinu lýkur í byrjun júlí. Alltaf er þetta skemmtilegt og gefur kennara mikið að sjá framför eftir fyrri daginn og að taka þátt í sigri nemenda þega þau hvolfa og fara á sund og bjarga hver öðru í fyrsta skipti. Margir eru bara að prófa kajak eins og margt annað skemmmtilegt og láta þar við sitja og er ekkert við það að athuga. Aðrir ræða hvað sé hægt að gera næst, það er stórt skref að kaupa kajak og allan búnað og ungt fólk á jafnvel ekki bíl.
Ég segi þeim að ekki kosti mikið að gerast félagi í Kayakklúbbnum og þá sé hægt að mæta í félagsróðra ef maður á föt til að róa í og sjá megi á klúbbsíðunni hvernig á að gerast félagi. Ekki virðast þó margir finna leiðina inn í Kayakklúbbinn. Það mætti vera aðgengilegra á klubbsíðunni og gott væri að vera með skemmtilega og stutta kynningu á vefsíðunni okkar um Kayakklúbbinn.
Ég er líka hræddur um að þessir byrjendur muni eiga erfitt með að fara í félagsróður. Hugsanlega er meira af venjulegu fólki að prófa þetta nú, fólk sem er ekki jafn til í átök og við vorum, um helmingur þessara 50 eru konur, sem hafa minni krafta og eru ekki farnar að njóta liðleika og tækni sem geta bætt upp minni styrk. Ekki er mikill tími til að kenna og æfa góðan framróður á byrjendanámskeiði. Fyrri tíminn er til að kynnast kajak og læra byrjunaratriði í róðratækni, síðar tíminn er fyrir öryggi og bjarganir. Framróður nær ekki lengra en að geta róið stuttan spotta, t.d. að skipsflakinu og til baka, að Fjósaklettun eða Gorvík og læra að halda stefnunni þokkalega.
Það er því skiljanlegt að róður umhverfis Viðey eða annað sambærilegt er of hár þröskuldur í byrjun, fyrir utan allt annað eins og að þekkja engan eða að eiga ekki passandi róðraföt. Ég er aðeins að benda á þetta, ekki beint með tillögu að lausn, en þessi byrjendur þurfa meiri æfingu í framróðri til að eiga samleið með félögum í fyrstu róðurum.
Til umhugsunar:
- Hefur Kayakklúbburinn ekki mikinn áhuga fyrir nýjum félögum ?
- Helmingur á byrjendanámskeiðum eru konur en mun færri í klúbbstarfinu - hvers vegna?