Klúbbaðild og byrjendanámskeið

26 jún 2018 14:37 - 26 jún 2018 14:38 #1 by Gíslihf
Sumir sem eru að ljúka byrjendanámskeiði spyrja mig eftir framhaldsnámskeiði. Ég tek fremur dræmt í það, segi að best sé að frá reynslu með því að róa með öðrum, helst í Kayakklúbbnum í félagsróðrum sem henti fyrir byrjendur og hægt sé að fá lánaða kayaka meðan þau séu að átta sig á hvað henti þeim. Síðan sé fínt að læra meiri tækni. Ástæðan fyrir þessari spuurningu kann að vera að þau telji sig ekki eiga samleið með öðrum félögum alveg í byrjun. Eina fólkið sem þau sjá þegar við erum með námskeið eru einn og einn félagi sem er að fara einn í róður til að þjálfa sig - yfirleitt afar færir ræðarar fyrir utan fólk að viðra hunda sína.

Það er spurning hvort klúbburinn gæti boðið upp á nokkra létta róðra sérstaklega fyrir byrjendur. Bæði ég og Maggi gætum sent póst á listann.

Annað sem þarf að bjóða í haust eru veltunámskeið í sundlaug. Veltan var veiki þátturinn í þriggja stjörnu hópnum í sumar og byrjendur þurfa einnig að fá tækifæri til að læra veltuna. Það eru nokkrir félagar sem ég sé fyrir mér sem góða veltukennara, en það að vera snjall í veltum er þó ekki það sama og að vera góður kennari. Þar þarf fyrst að vera góður i að greina vandann hjá nemandanum og svo að vera laginn í að koma því til skila og uppörva eins og í allri kennslu.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

20 jún 2018 08:39 #2 by SAS
Það eru um 20 nýskráningar í klúbbinn frá mars byrjun, þar af eru sex konur og hluti karlanna eru sotarar sem vonandi byrjuðu á SOT námskeiði.

Nokkuð ljóst að þátttakendur á byrjendanámskeiði á sjókayak eru ekki allir að skila sér sem félagar í Kayakklubbinn. En það er mjög eðlilegt því þau svör sem við sendum áhugasömum er að skrá sig fyrst á byrjendanámskeið og mæta síðan í félagsróður. Ótrúlegt, en það falla ekki allir fyrir þessu sporti.

Það er ákveðið stökk að mæta í félagsróður fyrir nýliða, þar sem oftast er tekið tillit til getu ræðara og róðrarlengd þá stillt í hóf, en það hefur vissulega ekki alltaf verið þannig. Það má alveg velta því fyrir sér, hvort ekki sé rétt að hafa einn lengri róður innifalinn í byrjendanámskeiðinu t.d. um Geldinganes eða Viðey, t.d. í þeim mánuði sem námskeiðið er haldið, þegar veðurspáin hentar. Það væri hægt að nota klúbbbátana í það, ef með þarf

kv

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 jún 2018 20:11 #3 by Olilja
Ég byrjaði í fyrra vor á námskeiði og svo beint í félagsróðra, en valdi bara veður við hæfi, var ekki að mæta í öldugangi og það gekk bara ágætlega. Held einmitt að þetta sé nú kanski oft spurning um áhuga eð hvernig fólk hefur hug á að stunda framhaldið. Auðvitað alltaf erfitt að byrja á einhverju nýju en mér fannst þú Gísli skila þessum upplýsingum ágætlega á námskeiðinu, bæði hvað varðar búnað og félagið. Auðvitað örugglega alltaf hægt að bæta upplýsingaflæðið en þetta er nú ekki mjög flókið og svo er mjög vel tekið á móti manni og passað upp á mann þegar maður er nýliði. Þetta er alla vega mín upplifun.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 jún 2018 16:05 #4 by gudmundurs
Mín sýn á þetta er að fólk er farið að taka námskeið sem þetta líka vegna þess að það vill gera hlutina sjálft. Mikið af fólki er farið að stunda sjókayakróður án þess að vera bundið klúbb eða félagsskap. Þetta sést reyndar meira í SOT bátum en margir klúbbar eru að sjá það sama að fólk er að taka námsskeið til að vera sjálfbjarga og stunda sín áhugamál sjálft.
Máski eru bara ekki allir félagsverur :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 jún 2018 15:17 - 19 jún 2018 22:48 #5 by Gíslihf
Alls hafa um 50 byrjendur verið á námskeiðum hjá mér þegar tímabilinu lýkur í byrjun júlí. Alltaf er þetta skemmtilegt og gefur kennara mikið að sjá framför eftir fyrri daginn og að taka þátt í sigri nemenda þega þau hvolfa og fara á sund og bjarga hver öðru í fyrsta skipti. Margir eru bara að prófa kajak eins og margt annað skemmmtilegt og láta þar við sitja og er ekkert við það að athuga. Aðrir ræða hvað sé hægt að gera næst, það er stórt skref að kaupa kajak og allan búnað og ungt fólk á jafnvel ekki bíl.
Ég segi þeim að ekki kosti mikið að gerast félagi í Kayakklúbbnum og þá sé hægt að mæta í félagsróðra ef maður á föt til að róa í og sjá megi á klúbbsíðunni hvernig á að gerast félagi. Ekki virðast þó margir finna leiðina inn í Kayakklúbbinn. Það mætti vera aðgengilegra á klubbsíðunni og gott væri að vera með skemmtilega og stutta kynningu á vefsíðunni okkar um Kayakklúbbinn.
Ég er líka hræddur um að þessir byrjendur muni eiga erfitt með að fara í félagsróður. Hugsanlega er meira af venjulegu fólki að prófa þetta nú, fólk sem er ekki jafn til í átök og við vorum, um helmingur þessara 50 eru konur, sem hafa minni krafta og eru ekki farnar að njóta liðleika og tækni sem geta bætt upp minni styrk. Ekki er mikill tími til að kenna og æfa góðan framróður á byrjendanámskeiði. Fyrri tíminn er til að kynnast kajak og læra byrjunaratriði í róðratækni, síðar tíminn er fyrir öryggi og bjarganir. Framróður nær ekki lengra en að geta róið stuttan spotta, t.d. að skipsflakinu og til baka, að Fjósaklettun eða Gorvík og læra að halda stefnunni þokkalega.
Það er því skiljanlegt að róður umhverfis Viðey eða annað sambærilegt er of hár þröskuldur í byrjun, fyrir utan allt annað eins og að þekkja engan eða að eiga ekki passandi róðraföt. Ég er aðeins að benda á þetta, ekki beint með tillögu að lausn, en þessi byrjendur þurfa meiri æfingu í framróðri til að eiga samleið með félögum í fyrstu róðurum.
Til umhugsunar:
  1. Hefur Kayakklúbburinn ekki mikinn áhuga fyrir nýjum félögum ?
  2. Helmingur á byrjendanámskeiðum eru konur en mun færri í klúbbstarfinu - hvers vegna?

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum