Veiga Grétarsdóttir ætlar að róa umhverfis landið næsta sumar eins og kunnugt er eftir stórt viðtal í Fréttablaðinu fyrir helg. Ég tel hana líklega til að leysa það erfiða verkefni með sóma, en það gerist þó ekki án mikilla átaka og þrautseigju. Það er sérstaklega áhugavert fyrir okkur sjókajakræðara að Veiga ætlar að róa rangsælis, en allir hafa farið réttsælis hingað til. Guðni Páll var lengi að hugsa um að fara hringinn þannig en af því varð þó ekki.
Allir hafa hingað til liklega miðað við kortin um straumana sem umlykja um Ísland, sem sýnir meginstefnu hafstraumanna vera réttsælis. Það er eins og vænta mátti því það voru Englendingar sem reru hringinn fyrstir og þeir eru aldir upp við sterka hafstrauma Bretlandseyja. Guðni Páll velti þó fyrir sér hvort iðustraumar (eddies) sem eru staðbundinir straumar með landi í öfuga átt, kynnu að hafa meiri árhrif en meginstraumarnir enda róa menn jafnan nálægt ströndinni. Þetta má sjá við annnes eins og Reykjanestá og Svörtuloft á Snæfellsnesi og eru straumskilin oft sjáanleg sem lína á sjónum stundum með froðu á yfirborði meðfram strönd í 50-300 m fjarlægð á að giska.
Allar þessar vangaveltur eru þó hugsanlega léttvægar með það í huga að vindur ræður mun meiru en straumar á íslandi um róður. Við munum t.d. að NA áttin er þrálát utan við Hornstrandir og því betra að koma frá Húnaflóanum. Við Suðurströnd er sjólagið þó oftar með haföldu úr SA og þar betra að róa úr austri, þó að Siglingastofnun hafi reyndar talið SV áttina ráða meiru við hönnun Landeyjahafnar.
Það væri fróðlegt af þessu tilefni að sjá mat á tíðni vindátta umhverfis landið og endurmeta skilyrði til hringróðurs út frá því.