JÆJA - það er kominn mars. Í nokkur ár var ég með persónulegt
marsátak til að koma mér í form fyrir sumarið, oft eftir margra letivikna vetur. Oft fékk ég góðan hóp með mér, enda yfirleitt allt góðir vinir og félagar í Kayaklúbbnum, þar sem kúltúr gagnkvæmra bjargana á sjó gefur góða tóninn og gagnkvæmt traust. Annað sport sem ég hef iðkað byggir einnig á traustum félögum, en það var bjargsig eftir eggjum, þar sem einn sat undir og annar seig niður. Því kynntist ég í Eyjum meðal Bjarneyinga og aldrei óttaðist ég að undirsetumaðurinn brygðist. Einn var samt spurður hvort ekki væri leiðinlegt að sitja undir í langan tíma. Hann sagðist bara fá sér hænublund af og til, ef sigmaður hrasaði og bandið væri óvænt að draga hann fram af bjargbrúninni, þá væri hann bara með einfalda slaufu og gæti kippt í endann til að sleppa bandinu
Nú er ég búinn að segja JÆJA og ætla að koma mér í gang, reyni að róa nokkrum sinnum í hverri viku og ekki væri leiðinlegt að fá félaga, en stundum er bara fínt veður fyrir hádegi þegar flestir eru í vinnu. Samt væri gaman að taka veltur og björgunaræfingar í öldu og svo er kominn tími á að róa aftur fyrir Reykjanesvita, frá Sandvík. Þetta eru svona 3* og 3*+ æfingar og róðrar.
Látið bara vita af ykkur hér eða á annan hátt ef einhver er með - annnars er ég bara einn í þessu, sem á helst ekki að gera.