Því má bæta við að Örlygur gerðist ísbrjótur fyrir okkur þegar farið var á sjó og fylgdi okkur að lendingu í Þerney, þrátt fyrir að vera orðinn lasinn.
Tjaldstæðið í Þerney þekki ég orðið vel eftir fyrri næturgistingar en nú var þar snjór í fyrsta sinn og var hann blautur. Vindur var af austan, 6-8 m/s og slydda af og til þannig að við hjálpuðumst við að tjalda, en síðan var bara farið úr sjógalla og beint í pokana, enda erfitt að halda nokkru þurru og þokkalegu og farið að nálgast miðnætti.
Svefninn var þokkalegur, maður vissi af sér af og til um nóttina en um kl. 7 fannst hrafnageri nóg komið og ákváðu að vekja okkur og helst að hrekja okkur á braut. Reyndu þeir að fella tjaldið hjá Jóni Kristni. Fremur gekk mér illa að smella innra tjaldinu úr, loppnir puttar og sleipar litlar plastsmellur fara illa saman.
Nestið kom mest allt heim aftur, enda lítið aðlaðandi að dunda sér við matseldi, bara kakósopi og brauðsneið og nú fer ég í heita pottinn, smá rígur er í öxlinni eftir að bera vel hlaðna kajaka.