Það er gott framtak af Magga félaga okkar að stofna til róðraþings í Stykkishólmi. Þessi viðburður er þó varla fyrir landann, því að fréttatilkynningin er alfarið á ensku. Einhverjir félaga okkar hafa ensku að móðurmáli og er lofsvert að taka tillit til þeirra en hvað um þýsku-, frösku-, pólskumælandi eða aðra, fínt væri að hafa textann einnig á þeirra tungu.
Geta má þess að 'Symposium' merkir samdrykkja sbr. vel þekkt rit eftir Plató og einu gildir hvaða tungu þeir tala sem eru orðnir vel drukknir.
Einnig er í lagi að benda á að forskeytið 'Arctic' er nokkuð yfirlætislegt og ofnotað af ferðaþjónustunni. Ísland liggur allt sunnan við norðurheimskautsbaug og liggur að mestu í tempraða loftslagsbeltinu en ekki kuldabelti heimskautsins.