Eins og í öðrum félögum eigum við von á nýjum félögum úr hópi þeirra sem fara í byrjendanámskeið. Það eru þó ekki allir að koma á byrjendanámskeið Kajakskólans til að ganga í Kayakklúbbinn. Sumir koma til að eiga lítið ævintýri með öðrum, aðrir af forvitni til að skoða þetta sport eins og aðrar tegundir útivistar. Einhverjir eiga svo hagsmuni eins og frístundahús við vatn eða í fallegu firði og vilja vera með kajak þar, eða ætla að skoða land og lífríki frá sjó.
Einn og einn hefur áhuga fyrir Kayaklúbbnum og því sem hann hefur að bjóða, vill ganga í klúbbinn og mæta í róðra. Hvort af verður ræðst líklega oft af viðtökum, hverja hann þekkir eða fyrstu kynni af þeim sem taka móti honum og bjóða velkominn ef vel á að vera. Unga fólkið spyr venjulega "hver verður þar" þegar spáð er í viðburð eða félagsskap, við þykjumst vera orðin sjálfstæð en þetta er alltaf sterkur þáttur - hvernig er tekið á móti mér, hvaða tengsl og vináttu get ég fundið.
Þegar nemendur mínir eru á pallinum og þið komið í róður eða eigið annað erindi, segi ég þeim oft, "þetta er reyndur og fær kajakræðari", "þetta er veltumeistarinn okkar" eða annað í þeim dúr og reyni hugsanlega að kynna fólk. Mitt fólk er með spurningar um búnað og báta og margt fleira og finnur án orða hvort ykkur finnst þetta þess virði að blotna og puða af og til.
Ég reyni að vera ekkert fyrir klúbbstarfinu eins og í morgun, var að ljúka félagabjörgun kl. 11 þegar fyrstu Hörpuræðarar fóru að tínast á pallinn - en það að sjá klúbbfélaga og heilsa þeim getur munað því hvort einhver gengur í klúbbinn og fer að stunda sportið.
Ég bið ykkur því að vera ófeimin að heilsa og spjalla. Þetta fer að styttast núna, 3 námskeið eftir og vonandi eitt veltunámskeið 15-16 júní með góðum aðstoðarkennara (GPV).