Á námskeiðum er oft verið að nota ensk hugtök, en ég reyni alltaf að nota íslensk orð samhliða. Oft er ekki víst hvað er rétta orðið. Mörg góð fagorð er að finna í bók Örlygs, "Sjókajakar á Íslandi" en þau þurfa að slípast til eins og önnur íðorð á okkar tungu, sum verða almennt notuð, önnur falla í gleymsku.
Góð íslensk orð skýra sig oft sjálf. Árin 1987-1991 var ég kennari í gamla Tækniskóla Íslands og kenndi m.a. grunn að tölvunotkun og gerð hugbúnaðarlausna. Þá var notuð einhver US-textbook og svo gat kennarinn fengið þúsundir af "krossaprofs" spurningum. Þegar til kom gat ég sjaldan notað spurningar um fagorð, þegar ég var búinn að snúa þeim á Íslensku, íslensku orðin sögðu sjálf hvað þau þýddu.
Á síðasta námskeiði var þátttakandi, Íslendingur sem býr í Bretlandi. Þegar ég var að sýna og útskýra lágstuðningsbeygju (low brace turn) sagði hann - já þetta er SKRENS og allir sem hafa leikið sér á skíðum sjá að þetta orð skýrir sig sjálft.
SKRENSi er hér með komið á framfæri fyrir 'low brace turn'.
PS: Kajakskólinn var að fá skilaboð um arf með eftirfarandi pósti:
Þú ert erfingi að fá USD30 milljónir dollara
. Ég hef mikilvægar upplýsingar fyrir þig með söfnunarsjóði í þínu nafni frá látnum gulli kaupmanni frá Íslandi. Vinsamlegast svaraðu fyrir frekari upplýsingar. Takk með bestu kveðjum, Sheema Khaja Waheed Uddin Subhani.
Ég er þess vegna að hugsa um að bjóða starfsemina til kaups með 50% afföllum á aðeins USD 15.000.000 og hætta þessu puði