Veltan er vörumerki kajakróðurs í hugum fólks. Það er veltan sem er áhugaverð en um leið kvíðvænleg ef ræðarinn hvolfir og getur ekki losað svuntuna. Þrátt fyrir þetta er veltan sjaldan notuð og ræðarar þurfa að æfa sérstaklega til halda færninni við. Sumir vanir ræðarar og félagar okkar sjókajakræðara segjast aldrei þurfa að nota þá færni að geta velt sér allan hringinn. Hvað er rétt í þessu efni?
GG selur SOT veiðibáta og einn helsti söluhvatinn er að ekki þurfi veltukunnáttu við notkun þeirra og svipað er að sjá nú þegar Epic surfskíði eru auglýst. Svo eru það þeir félagar sem hafa róið þúsundir km og þurftu ekkert að nota veltuna. Velta óvænt og óviljandi gerist oft á straumkajak en sjaldan á sjókajak og þjálfun í jafnvægi og áratækni, einkum stuðningsáratökum, getur komið í veg fyrir veltu oftast nær. Þá sjaldan að það gerist er oftast félagi nálægt og getur beitt félagabjörgun. Flugmenn æfa ofris í allmikilli hæð til þess að þekkja hvenær hættan er nálæg og til þess að það komi aldrei fyrir síðar meir. Það er svolítið þannig með veltu eða nærri því veltu og stuðningsáratök til að stöðva ferlið.
Þrátt fyrir þetta kennum við veltu og flestir sækjast eftir að ná þeirri færni. Það er skemmtilegt, það er krydd á þetta skemmtilega sport, það eykur öryggistilfinningu og vellíðan í ólgusjó, það kemur sér vel við ýmsar aðstæður sem annars væri rétt að halda sig fjarri og það getur orðið manni til bjargar, enda þótt hægt sé að vera án veltunnar mesta hluta tímans.
Kajakskólinn verður með framhaldsnámskeið í ágúst -
kajakskolinn.is/skraning/ - þá verður áratækni kennd og veltan í framhaldi af því, þetta tvennt þarf að fara saman.