Þegar farið er niður á Eiðið þar sem aðstaða klúbbsins er má sjá tóttir í brekkunni á vinstri hlið. Það munu vera fornleifar og þar stóð smábýlið Eiði áður fyrr. Eiðið sem tengir land við Geldinganes heitir Eiðsgrandi og víkin altt að Fjósaklettum heitir Eiðsvík. Aðstaða okkar er ekki í Geldinganesi, heldur á Eiðsgranda eða eiðinu við Geldinganes.
Kajakskólinn er oft með nemendur í víkinni innan við bryggjustólpana, sem standa út í sjóinn skammt vestan við eiðið, sú vík heitir Klapparvör en fyrsti klettahöfðinn vestan við eiðið er Klapparnef. Áður var önnur Klapparvör nær miðbæ Reykjavíkur, en hún er nú horfin eftir að Sæbrautin var lögð með uppfyllingu utan við gömlu Skúlagötu.
Hér fylgir kort með þessum heitum. Lesa má um Eiði og önnur eyðibýli í Reykjavík í ritgerð Oddgeirs Ísakssonar, Minjar undir malbiki.