Anula lauk við róður umhverfis Sikiley

22 mar 2020 15:24 - 23 mar 2020 08:34 #1 by Gíslihf

Anula Jochim skrifar í gær að hún hafi verið að ljúka róðri sínum umhverfis Sikiley. Hún endaði með því að róa 66 km og var fram í myrkur. Veður var erfitt en vegna útivistarbanns varð hún að klára ferðina eða hætta við. Við óskum Anulu til hamingju, en hún hefur verið hér á landi sl. sumur við leiðsögu ferðamanna m.a. hjá Magga Sigurjóns. Af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér ferð sem við Anula fórum í ágúst 2017, með hóp frá Magga.

Þetta voru 5 karlar, vinahópur frá USA og ein bresk stúlka (Kate t.h.). Við fórum á sjó frá golfvellinum í Stykkishólmi og ætluðum í Effirsey sem Maggi hafði leyfi fyrir tjaldgistingu í. Vindur var í efri mörkum fyrir hóp óvanra ferðamann en við höfðum tafið brottför með því að skoða Snæfellsnes þar sem við Anula smurðum samlokur fyrir hópinn í skjóli rútunnar og drukkum kaffið við sæluhús á Fróðarheiði.

Loks settum við á sjó líklega um kvöldmat og Anula fór yfir grunnþætti róðurs og óvæntra atvika við fjöruna og var vön og fagleg í því eins og góður leiðsögumaður. Við vorum rétt komin fyrir fyrsta nesið þegar vindur magnaðist af norðaustri um 10 m/s og aldan náði meters hæð á örskömmum tíma. Ekki var annað í stöðunni en að láta berast inn í Nesvoginn sem skilur Stykkishólm nærri því frá fastalandinu á Þórsnesi. Ég tók stjórnina sem "yfir-leiðsögumaður" ferðarinnar og skipaði fyrir á báðar hendur með mun valdmannslegri hætti en mér er eiginlegt, lét einn bíða í þarabúnti, annan bak við rif, hjálpaði tveimur í öruggt skjól og fékk Anulu verkefni, sem varla þurfti því hún var með stöðuna á hreinu allan tímann og sá hvað gera þurfti.

Við komum hópnum til baka, misblautum og þreyttum og settum upp tjaldbúð okkar ofan við fjðruna, þar sem ferðin hafði byrjað. Næsta morgun var veður gott og hægt að fara í Effirsey. Eftir stendur sterk minning mín um kjarkmikla, fremur smávaxna konu, þegar hún dró á eftir sér kayak með sterklegum þungum karlmanni og kláraði það allt vel. Þegar við kvöddum hópinn réttu karlarnir Anulu búnt af dollurum eins og þeirra (USA) er siður til að lýsa þakklæti. Hún skipti því "bróðurlega" milli okkar tveggja, en enginn vafi var á því að það var hún sem átti aðdáun þessa karlahóps.
Anula er lengst t.v. á myndinni sem ég tók í lok ferðar.
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum