21.-22.júlí, laugardag og sunnudag, er klúbbferð, öllum opin, í Teigsskóg, Þorskafjörð og að minni Djúpafjarðar og Gufufjarðar á Barðaströnd. Teigsskógur er gamall og óspilltur íslenskur skógur á norðurströnd utanverðs Þorskafjarðar, veit mót suðri og er gróðursæll í talsvert brattri hlíð sem skartar arnarvarpi efst en fjölbreyttum gróðri, birki og reynitrjám í hlíðunum allt niður í fjöru, þar sem víða eru fallegir klettar og tjaldað er á mjúku og þykku lyngi. Fyrri umhverfisráðherra veitti leyfi fyrir skoðun á vegalagningu gegnum skóginn miðjan, út nesin fyrir vestan skóginn með þverun tveggja fjarða, Gufu- og Djúpafjarðar í huga:ohmy: . Nú ætlar Vegagerðin að fara að mæla fyrir vegarstæðinu.
Ásta Þorleifsdóttir og fleiri hafa látið sig málið varða opinberlega og bent á mun hagkvæmari leiðir til vegalagningar, sem ekki mundu spilla skógi, gróðri, fuglalífi og náttúru sem er einstök, en fáir þekkja. Það er kominn tími til að heimsækja svæðið og að við leggjum okkar af mörkum til að fá Teigsskóg alfriðaðan;) .
Förum frá Reykjavík vestur á Reykhóla í Reykhólasveit (ca. 200 km, 3-4 klst akstur, sennilega álíka langt frá Akureyri, en allnokkru styttra frá Ísafirði), annaðhvort á föstudagi 20.júli (gott tjaldstæði er á Reykhólum, hittumst þar þau sem koma þá) eða á laugardagsmorgni 21. júlí. Frá Reykhólum er ekið út nesið ca. 10 km að Stað á Reykjanesi, sem var kirkjustaður til 1957 með friðaðri kirkju. Þar búa þau Rebekka Eiríksdóttir og Kristján Ebenesarson í húsinu sem komið er að fyrst og þau vita af okkur og bjóða okkur velkomin til að róa frá Stað. Eldri bóndinn, Eiríkur Snæbjörnsson og kona hans, vita eflaust líka af okkur. Frá Stað er ekið til vesturs niður að sjó, ca. 1-2 km, að höfn sem notuð er m.a til samgangna út í Skáleyjar. Reiknið með 4 klst til að komast þetta frá Reykjavík á laugardagsmorgni (leggið af stað um kl. 09-10). Þarna er a.m.k. 4 metra munur á flóði og fjöru og mikið útfiri. Háflóð er um kl. 12 f.h. og háfjara kl. 18, en þá byrjar að flæða inn aftur. Straumur út Þorskafjarðarminnið og úr Djúpafirði getur verið nokkuð stríður. Frá höfninni á Stað, þar sem við söfnumst saman endanlega, verður lagt upp væntanlega á miðju útfalli kl. um 15-16, róið rólega inn með sunnanverðum Þorskafirði milli smáeyja og skerja, svo þverað yfir að minni Gufufjarðar og Djúpafjarðar þar sem heitir Grónes, fuglalíf skoðað og áð, svo farið inn að Hallsteinsnesi þegar fer að falla að, inn fyrir Grenitrésnes (ekkert grenitré þar sjáanlegt nú), inn Þorskafjörð í kvöldkyrrðinni og þegar er að koma háflóð um kl. 22-23 leggjum við að í Teigsskógi þar sem okkur lýst vel á og tjöldum. Við kveikjum ekki neinn eld því það er þurrt þarna sem annarsstaðar nú, en grillum í fjöru og njótum kvöldsins í góðu kompaníi. Næsta morgun er fjöruganga, - við förum um skóginn og klettasvæðin við ströndina. Förum svo á flóði kl. 11 yfir Þorskafjörð á Laugaland sunnan fjarðar (þar mun vera laug, takið sundföt og handklæði, ef hægt væri að nota hana) og svo dólum við út fjörðinn tilbaka að Staðarhöfn. Komin þangað um kl. 14-16 eða svo.
Við buðum nýjum umhverfisráðherra með, hana langaði en gat ekki komið af persónulegum ástæðum, en hún hefur áhuga á að kynnast kayakróðri. Takmarkið er að fá góðar myndir af náttúrunni og róðri og segja frá ferðinni, t.d. í Morgunblaðinu.
Ferðin hentar öllum með nokkra reynslu og er ekki erfið. Hafið með viðlegubúnað, nesti fyrir eftirmiðdag 21.7. og seinum kvöldverði með tilheyrandi góðum mat og drykk fyrir miðnæturvöku, rólegum morgunverði næsta dag og gott er að eiga eitthvað þegar í land er komið á sunnudeginum. Hafið vatnsbrúsa með (lækir eru ekki áberandi í skóginum). Ef veður verður hliðhollt getur þetta orðið eðalferð.
Hafið samband við mig, Reyni Tómas Geirsson, formann ferðanefndar, hér á korkinum, á marest@tv.is eða í s. 824 5444 eða 553 1238 og látið mig vita ef þið ætlið með og hvort þið farið vestur á föstudegi eða laugardegi. Auðvitað verður beðið veðurspár, en það má byrja nú þegar að spá í þetta. Nánari fregnir verða á korkinum og róðrarleið er sýnd á korti á Dagskránni.
Sérlega gaman væri að hitta Ísfirðinga eða aðra vestfirska þarna líka.
Post edited by: palli, at: 2007/07/11 09:45
Post edited by: Reynir Tómas, at: 2007/07/12 22:42<br><br>Post edited by: Reynir Tómas, at: 2007/07/18 06:57