Hvalfjörður, 27. ágúst

28 ágú 2022 13:42 #1 by SPerla
Replied by SPerla on topic Hvalfjörður, 27. ágúst
Það var brakandi blíða, sólskin og bærðist ekki hár á höfði þegar flottur hópur kayakræðara lagði úr vör í Hvammsvík. Veður var svo gott að sumir voru ekki alveg á því að galla sig eins og venja tíðkast hér á norðurhveli jarðar. Eftir „messusöng“ og hópmyndatöku var róið nokkuð áfallalaust, fyrir utan blóðugan putta, út að Þyrilsnesi. Undir Þyrilsnesi hóf Örlygur, sagnameistari kayakklúbbsins, upp raust sína og fræddi hópinn um samgöngur á svæðinu til forna, svo undir tók í berginu. Þaðan lá svo leiðin upp að Geirshólma sem var virtur fyrir sér frá öllum hliðum en ernirnir sem hafa haft þarna aðsetur létu ekki sjá sig. Áður en Geirshólmi var kvaddur var við hæfi að hlusta á meistara Örlyg segja sögu Geirshólma svo unun var á að hlýða.Þaðan var róið yfir að Miðsandi þar sem áð var og sumir notuðu tækifærið og nældu sér í smá kríu í leiðinni. Heimferðin gekk með miklum ágætum, róið var meðfram strönd að Hrafneyri og þaðan þverað yfir að Hvammsvík. Eftir allan frágang á bát og búnaði hélt einn kayakræðari heim á leið meðan aðrir nýttu sér sjóböðin og slökuðu á eftir góðan dag, með svaladrykk í hönd.Mjög góður dagur að baki en það setti þó strik í reikninginn að helmingur skipuleggjenda gat ekki róið með okkur og fylgdist þess í stað með sjósetningu. Þess utan var allt eins og það átti að vera, tíu kayakræðarar ýttu úr vör og tíu skiluðu sér í land.  Þakka þeim er tóku þátt. 
Þessir röru: Perla (fararstjórn), Örlygur, Guðrún, Sigrún, Arnar, Ágúst Ingi, Helgi, Hörn, Natalía og Rad.

Hér eru nokkrar  myndir   

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

24 ágú 2022 20:37 - 24 ágú 2022 20:56 #2 by SPerla
Replied by SPerla on topic Hvalfjörður, 27. ágúst
Spáin fyrir laugardag er norðvestan átt, 4 m/sek. Skýjað og 13 gráður.
Sjóböðin hafa bætt um betur og bjóða okkur nú 2 fyrir 1 á laugardag. 
Vonumst til að sjá sem flesta. 

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

20 ágú 2022 11:41 - 20 ágú 2022 11:43 #3 by SPerla
Mæting er í Hvammsvík kl. 9:30 en leyfi hefur fengist fyrir sjósetningu þaðan. Áætluð sjósetning er kl. 10:00. Róið verður út að Þyrilsnesi og þaðan yfir í Garðshólma, hann hringaður áður en þverað verður yfir að bryggjunni á Miðsandi (sem er rétt vestan við Hvalstöðina), þar er gott að taka kaffistopp. Róið verður svo meðfram ströndu norðan megin og þverum síðan frá Hrafneyri aftur yfir í Hvammsvík. Róðrarleið er 14-15 km. Svo er um að gera að skella sér í sjóböðin í Hvammsvík eftir róður þar sem við fáum 25% afslátt. Munið þá eftir sundfötum og handklæði.

Smá fróðleiksmolar: Geirshólma er getið í Harðarsögu Hólmverja en sagan segir að Hólmverjar, ræningjalið undir forystu Harðar Grímkelssonar, hafi haft þar aðsetur. Þaðan fóru þeir ránshendi um nálægar sveitir uns bændur fengu nóg af háttsemi þeirra, ginntu þá í land og drápu.

Melding fer fram korki kayakklúbbsins eða á fb síðu kayakklúbbsins. Ef einhverjum rössum vantar far og eins ef þið hafið pláss fyrir aukarass og bát, þá vinsamlegast smellið því með.

Leiðarlýsing: Beygt til hægri inn Hvalfjörðinn, rétt áður en komið er að göngunum, og keyrt tæpa 22 km þar til komið er að Hvammsvík. 

Nánari upplýsingar:
Perla – 864 8687
Unnur Eir – 861 630


[img]C:\Users\SPerla\OneDrive\Desktop[/img] 
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum