Það var brakandi blíða, sólskin og bærðist ekki hár á höfði þegar flottur hópur kayakræðara lagði úr vör í Hvammsvík. Veður var svo gott að sumir voru ekki alveg á því að galla sig eins og venja tíðkast hér á norðurhveli jarðar. Eftir „messusöng“ og hópmyndatöku var róið nokkuð áfallalaust, fyrir utan blóðugan putta, út að Þyrilsnesi. Undir Þyrilsnesi hóf Örlygur, sagnameistari kayakklúbbsins, upp raust sína og fræddi hópinn um samgöngur á svæðinu til forna, svo undir tók í berginu. Þaðan lá svo leiðin upp að Geirshólma sem var virtur fyrir sér frá öllum hliðum en ernirnir sem hafa haft þarna aðsetur létu ekki sjá sig. Áður en Geirshólmi var kvaddur var við hæfi að hlusta á meistara Örlyg segja sögu Geirshólma svo unun var á að hlýða.Þaðan var róið yfir að Miðsandi þar sem áð var og sumir notuðu tækifærið og nældu sér í smá kríu í leiðinni. Heimferðin gekk með miklum ágætum, róið var meðfram strönd að Hrafneyri og þaðan þverað yfir að Hvammsvík. Eftir allan frágang á bát og búnaði hélt einn kayakræðari heim á leið meðan aðrir nýttu sér sjóböðin og slökuðu á eftir góðan dag, með svaladrykk í hönd.Mjög góður dagur að baki en það setti þó strik í reikninginn að helmingur skipuleggjenda gat ekki róið með okkur og fylgdist þess í stað með sjósetningu. Þess utan var allt eins og það átti að vera, tíu kayakræðarar ýttu úr vör og tíu skiluðu sér í land. Þakka þeim er tóku þátt.
Þessir röru: Perla (fararstjórn), Örlygur, Guðrún, Sigrún, Arnar, Ágúst Ingi, Helgi, Hörn, Natalía og Rad.
Hér eru nokkrar
myndir