Kæru kayakfélagar.
Við í afmælisnefndinni höfum haft svo gaman af að skipuleggja 40 ára afmælishátíðina og látið okkur hlakka til en ekki gátum við ímyndað okkur að það yrði svona skemmtilegt. Við þremenningarnir erum mjög ánægð með kvöldið og svo þakklát.
Þakklát Valla Sport fyrir frábæra veislustjórn, þakklát A Hansen fyrir magnaða veisluþjónustu og dásamlegan mat, þakklát Guðrúnu Sóleyju fyrir óvænt skemmtiatriði sem var þvílík snilld enda veltist salurinn um af hlátri, Ási uppistandari var mjög skemmtilegur og hljómsveitin 6pence sló alveg í mark með nineties slagara og reyndar sló hún í gegn ekki bara hjá Kayakklúbbnum heldur einnig íbúum í Naustavör sem skemmtu sér við að hlusta á bandið.
Fyrst og fremst erum við þremenningarnir þó þakklát fyrir að tilheyra þessum hópi. Það allra besta var að sjá gleðina og vináttuna hjá þessum dásamlega hópi þar sem jákvæðni og gleði var í fyrirrúmi nú sem endranær. Það voru bókstaflega allir brosandi, hlæjandi og dansandi mestallt kvöldið og faðmlögin voru þétt í lok kvölds. Takk fyrir samveruna kæru vinir, við erum hjartanlega sammála Valla Sport, þessi félagsskapur er einstakur!
Fyrir þau ykkar sem misstu af kvöldinu þá er engin ástæða til að örvænta, okkur heyrist vera búið að leggja drög að nýrri skemmtinefnd og stefnt sé að árlegri skemmtun hér eftir!
Að síðustu þá mega þátttakendur afmæliskvöldsins greiða fyrir áfengu drykkina með því að leggja inn á reikning klúbbsins, 0515-26-397777, kt. 410493-2099. Ef þið eruð óviss um hvað þið skuldið þá er bara að senda fyrirspurn á kayakklubbur-hjá-gmail.com. Sjáumst í næsta róðri!
Kær kveðja, afmælisnefndin