10.-12. ágúst. Breiðafjarðarferðin sem farin hefur verið helgina eftir verslunarmannahelgi á vegum Ferðanefndar verður að þessu sinni frá Skarðsstöð á Skarðsströnd í Rauðseyjar, Rúfeyjar og Djúpeyjar að Klofningi.
Þetta er ferð á sjóbátum fyrir sjómenn og straumvatnsmenn, róður sem er meðalerfiður og krefst ekki mikillar reynslu en er frábær útivist. Að þessu sinni er róðið aðeins meira fyrir opnum firðinum, en mikið af skerjum og smáeyjum er þó á svæðinu. Vanir ræðarar eru alltaf með í för:) .
Áformað er að hittast á föstudagskvöldi 10. ágúst við Skarðsstöð neðan við kirkjustaðinn fornfræga, Skarð á Skarðsströnd. Farið er í Búðardal og áfram í Saurbæinn, en þaðan beygt á veg 590 út Skarðsströndina. Beygt rétt áður en komið er að Skarði niður afleggjara til hægri þegar ekið er út Skarðsströndina úr Saurbæ, en einnig má fara inn Fellsströnd og svo norður fyrir Klofning og inn Skarðsströndina. Við megum tjalda við litlu höfnina Skarðsstöð, þar sem eru ágætir grasbalar við höfnina og vatn í krana á hvítum litlum hafnarkofa. Bílum verður lagt í gamlan húsgrunn þar sem hestar komast ekki að þeim. Leyfi fyrir að tjalda þarna og í eyjum er góðfúslega fengið hjá Kristni bónda á Skarði. Kirkjan á höfuðbólinu Skarði etv. skoðuð um kvöldið. Einhverjir fara líka um kvöldið með 2-3 bíla að Kvenhólsvogi á Klofningi sunnanverðum til að unnt sé að sækja hina bílana á sunnudeginum.
Mögulegt er að einhverjir vilji lengja róðurinn með því að róa á útfiri á föstudagskvöldi frá Tjaldanesi innarlega á Skarðsströndinni og út í Skarðsstöð (20 km), en þá þarf að fara af stað á háflóði um kl. 18. Vinsamlega látið mig vita svo ég geti leiðbeint um hvar þarf að fara að sjónum og til að ég geti rætt við bóndann þar, sem eins og Kristinn á Skarði tekur ræðurum vel.
Reiknað er með að fara af stað milli flóðs (sem er um kl. 06.30) og fjöru næsta morgun út í Rauðseyjar (þ.e. lagt af stað 09.30 - 10.00). Rauðseyjar voru í byggð til 1945 og þar er enn að sjá heillega hlaðna vör frá 19. öld, “dokkuna”. Þar verður tjaldað og farið um síðdegið eða næsta dag, sunnudag, út í Rúfeyjar þar sem einnig var lengstum byggð. Síðan inn að svonefndum Djúpeyjum (eða Hafnareyjum) og inn með sunnanverðri Skarðsströnd að Klofningi og suður yfir Þröskuldana milli Langeyjarness og Efri-Langeyjar inn í Kvenhólsvoginn. Áætlað samtals um 25 – 30 km, en má lengja með því að fara í svonefnd Suðurlönd aðeins norðvestan við Rauðseyjar eða í Akureyjar.
Sjá nánar á Breiðafjarðarkorti:
www.breidafjordur.is/Breidafjardarnefnd/Verndarsvaedid/kort.htm
Bílarnir sóttir á sunnudeginum út á Skarðsströnd.
Sjókajaka og allt sem þeim fylgir þarf að hafa, þ.m.t. tjöld, svefnpoka, prímusa, nesti, nestisdrykki, skemmtiefni, brennikubba, sjónauka, landakort, GPS og myndavélar. Takið með vatn, því það er af skornum skammti í eyjunum. Umsjón: Reynir Tómas, s.824 5444, eða 553 1238, reynirg@landspitali.is eða marest@tv.is
Post edited by: Reynir Tómas, at: 2007/08/04 11:29
Post edited by: Reynir Tómas, at: 2007/08/04 12:03
Post edited by: Reynir Tómas, at: 2007/08/04 12:05<br><br>Post edited by: Reynir Tómas, at: 2007/08/07 23:04