Ég og Gauti bróðir skelltum okkur í sunnudagsróður eins og við höfum gert upp á síðkastið, stefnan var að róa frá Njarðvík í Voga og til baka.
Þetta væri reyndar ekki frásögu færandi nema þegar við vorum hálfnaðir til Voga rákumst við á hnúfubak sem kom reglulega upp á yfirborðið með sporðaköstum og blástri. Hann kom upp þrisvar eða fjórum sinnum í einu og kafaði síðan í 4 til 10 mínútur.
Við fylgdumst með honum í rúmann klukkutíma og stundum kom hann upp óþægilega nálægt okkur, eitt skiptið heyrði ég þvílíkann blástur við hliðina á mér og þegar ég leit við var hann þarna cirka 3 metra frá mér. Þetta var alveg ótrúlegt og ég hef sjaldan bölvað sjálfum mér eins mikið að hafa ekki tekið myndavélina með, en hún verður pottþétt tekin með næsta sunnudag.