Tuttugu manns mættu til leiks í morgun, fjölbreyttur hópur og út var róið.
Viðeyjarhringur var það. Sjórinn var kekkjóttur á köflum og strax byrjaði neðansjávarskoðun við Fjósakletta þegar einhver fór á hvolf. Falleg
félagabjörgun framkvæmd og áfram var róið sunnan Viðeyjar og stefnt á kaffi í Áttæringsvörinni. Ein hvolfun í viðbót á innsörfinu og síðan kaffi og kex. Ágætis veður þá komið.
Eftir kaffi skiptist hópurinn með því að helmingurinn arkaði yfir eiðið með bátana til að komast á lygnari sjó, en hinir gusuðu sér norður fyrir eyna. Og enn var hvolft, í þetta sinn þegar félagi var of seinn að haska sér út fyrir brimið. Hann synti í land og kom sér á flot aftur en þetta tók sinn
toll; stýrið laskað og axlir lemstraðar. Einnig skallaði hann grýttan botninn en var með
hjálm, góð hugmynd.
Hóparnir sameinuðust síðan norðan Viðeyjar og gerðist fátt uns kom að Fjósaklettum á heimleiðinni. Þar var þá komið vinalegt sörf og
skemmti hópurinn sér vel. Og enn á ný komu hvolfanir í fjöldavís. Virkilega mikil tilþrif á t.d. þegar fimm manns ætluðu að ríða sömu ölduna í einu. Útkoman varð auðvitað fjöldaárekstur og allir í kaf. Þarna fengu margir bátar olnbogaskot. Í eitt skiptið var eins og Þýski rauður minn ætti eitthvað vantalað við gæðinginn hans Magnúsar og
stangaði hann eins og mannýgt naut. Þessi leifturárás skildi eftir sig rifna klæðningu á fórnarlambinu. Einnig sást til Andra á fleygiferð þar sem hann hlunkaðist yfir dekkið hjá Gísla og sat þar lengi. Það tók drykklanga stund að losa parið í sundur. Stuttu síðar varð Gísli fyrir
annarri árás, að þessu sinni sjálfur nýkominn á hvolf, en það hindraði ekki ónefndan mann í að ríða yfir hvítskúraðan kjölinn hjá honum með tilheyrandi brestum. Gísli beið neðansjávar uns um hægðist og kom síðan upp úr kafinu með
fallegri veltu.
Mannskapurinn kom í síðan í land um kl. 14 eftir þennan hressilega róður.