Egilsmótið var frábært að mínu mati. Þarna voru sterkir kraftar að verki, þar sem saman komu gestgjafarnir Austanmenn, Steini og Rita. Þetta er fólk sem kann að rigga upp sympósíumi. Freya og Fostershjón voru frábær. Klúbbaðstaðan hjá Kaj er sérkapítuli útaf fyrir sig. Þar var vægast sagt gott að sitja í sólinni á viðarpallinum þegar maður var ekki að róa. Mjög vel haldið utan um hlutina þarna og gaman að heimsækja Austanmenn. Maður vissi nú fyrirfram að þeir væru hágæðin holdi klædd þegar talið berst að kayaksportinu en það hefur sárlega vantað að hitta kempurnar í eigin persónu á þeirra heimavelli. Og það var sallagott. Móttökurnar voru hreint út sagt frábærar. Þakkir enn og aftur.Keppnirnar voru fínar, margir keppendur og hart barist. Keppnisjaxlinn Sveinbjörn Ísfirðingur vann sprettinn, til hamingju með það. Hitt er líka athyglisvert að Ásgeir Páll náði að gerbreyta stöðu efstu manna til Íslandsmeistara með því að hreppa 2. sætið. Hann leiðir nú baráttuna með 130 stig en var í 4. sæti fyrir Egilsmótið. Mig grunar að Bessastaðabikarinn muni verða vettvangur hinnar grimmustu sjóorrustu þar sem menn munu gleypa sverðsodda og bryðja skammbyssupúður í morgunmat. Veltukeppnin var að þessu sinni óvenju krefjandi. Hjónin Nigel og Kristin stjórnðu henni og létu keppendur taka hverja veltu bæði hægra og vinstra megin áður en næsta afbrigði var lagt fyrir. ca 12 keppendur tóku þátt sem er með mesta móti held ég bara. Og margir ruddust mjög langt inn í prógrammið og það var ekki fyrr en blessaða handveltan var sett fyrir að það fór að fækka í hópnum. Knúinn var fram bráðabani milli okkar Pálma Ben. sem lauk með sigri hans, til hamingju með það. Strákústar og kengogin plaströr höfðu þá verið brúkuð til banans. Þakkir aftur og sjámust á sjó.