Fjórtán réru í kvöld. Einn atvikamesti róður lengi.
NV stinningskaldi og svolítil alda út að norðurenda Viðeyjar, þar sem verulega tók að þyngjast róðurinn í stórum öldudölum frá úthafsöldu. Reyndar brotnuðu þær ekki langt úti fyrir landi þannig að þetta var allt undir stjórn, þótt hægt gengi. Það var síðan við enda eyjarinnar sem fór að kárna gamanið. Á þessum tímapunkti var róið í þremur hópum og urðu fjöldahvolfanir í þeim öllum. Síðasti hópurinn, 4 manna lenti í hvolfunum beint undan norðurhluta Viðeyjar þar sem braut á eyjunni og bisaði við félagabjörgun og dráttartog rétt utan brimgarðsins. Þarna urðu þrjár hvolfanir í miðjum atganginum og munaði hálfri bátslengd að menn og bátar færu sem einn inn fyrir brimgarðinn. Á meðan var næsti hópur að berjast við svipaða uppákomu aðeins sunnar og þar var dráttarklárinn Maggi í hörkuvinnu við línutog og bras sem endaði með því að hann fékk árablað í hausinn líkt og Þráinn Sigfússon öxi Skarphéðins á Markarfljóti, nema hvað Maggi lifði af en Þráinn ekki. En Maggi er með myndarlegt strik fyrir ofan augabrúnina. Þá segir frá fremsta hópnum sem fékk líka sitt sund nokkru utan við Eiðið þegar tvær hvolfanir urðu og enn eitt sundið. Hálfgert neyðarkaffi var tekið á Eiðinu og reynt að stoppa yfirvofandi ofkælingu með te og nothæfum flíkum. Heim var síðan haldið um Viðeyjarsund meira og minna í dráttartogum og stuðningsbátaflekum í hliðaröldu. Þetta gekk ágætlega en rétt utan við Fjósaklettana kom svo lokasyrpan í þessum hvolfunum, en þar var skárri sjór og félagabjörgun gekk vel. Heitt á brúsum og dráttarlínur skiptu sköpum í þessum róðri. Og samvinna. Róður sem maður gleymir ekki í bráð.