Ég má til með að skella þessari mynd inn, úr róðrinum í gærkvöldi. Á meðan hinkrað var eftir þeim sem ráku lestina, varð fyrir okkur æðarkolla nokkur sem virtist eitthvað ringluð. Hún synti inn á milli bátanna án þess að sýna nokkur merki þess að vera smeyk við þá. Þegar hún var búin að synda nokkrum sinnum á báta varð ljóst að eitthvað bjátaði á hjá henni. Einhver hélt því fram að hún hefði komist í koníakið í Viðeyjarstofu og vel mátti halda að hún væri blind-full. Blind var hún vissulega því hún sýndi enga flóttatilburði, hvorki til flugs né köfunar.
Andaveiðin gerist varla auðveldari þegar þær eru gripnar berum höndum uppúr sjónum við hliðina á bátnum.
Róður gærkvöldsins var fjölmennur, 18 manns og margt nýliða. Sjórinn rólegur, smákvika norðan við Virkishól. Pása var tekin í Virkisfjörunni. Að því loknu var aðeins farið út fyrir Virkishólinn og snúið við hjá Eiðinu. Þá hvolfdi einum tvívegis en sýndi fyrirmyndaratferli á sundi og við félagabjörgunina. Orkan snarféll samt í buslinu og var sett í gang tog með stuðningi heim í gáma. Menn skiptust á að toga og þetta gekk fínt.