Helgarróður fyrir Mýrar.

16 sep 2008 01:14 #1 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re:Helgarróður Mýrar.
Þessi ferð er stöðugt í huganum og undirmeðvitundinni, eftir að ég kom heim, einnig í svefnrofum og vinnu. Þannig er góð kayakferð reynsla sem skilur mikið eftir, bæði er það náttúran þ.e. landslag og verður, samhentur hópur og svo \"kayaklistin\" sjálf.
Mér fannst í lagi að geta þess sem mér var sagt í dag, að Ásmundur bóndi að Ökrum mun vera fæddur í Þerney, sem við sækjum oft heim í félagsróðrum. Fróðlegt væri að kíkja þar eftir bæjarrústum við tækifæri.
Kveðja, GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 22:01 #2 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re:Helgarróður Mýrar.
Sjóferð í haustveðri.
Ég sé að ferðasagan er komin en úr því að ég var búinn að setja saman frásögn læt ég hana kma líka. Þið getið þá metið hver segir satt og hver lýgur mest!

Ekki fór allt eftir áætlun í þessari ágætu sjóferð og við fengum að takast á við hressilegt veður og krefjandi umhverfi. Við Maggi og Hörður fórum af stað yfir Borgarfjörðinn í útsynningshviðum þannig að aldan byggðist upp á leið inn fjörðinn um leið og útfallið var á móti. Maggi var með Q-bát Örlygs í togi en hann (báturinn) fór hvað eftir annað á hvolf og varð þá eins og rekakkeri sem kippti Magga á aðra hliðina stundum þegar hann var að fá hliðaröldu undir hina síðuna. Með alkunnri snilld sinni gat hann þó náð sér upp á high breisi en að lokum var ákveðið að snúa við og aka niður í Straumfjörðinn.
Þar tók Steinar bóndi okkur ljúflega og vísaði okkur á gott tjaldstæði í skjóli undir hól. Langt er síðan ég hef sofið jafn vel og lengi enda lítið annað að gera þegar myrkrið skellur á um kl. 9. Ég rumskaði við ljósið af bíl Örlygs þegar hann rann hljóðlaust upp að tjaldi Magga enda heyrði ég bara í vindinn gnauða á eigin tjaldi. Síðar heyrðist mér þó einhver vera að rjátla við bátinn minn og varð hugsað til frönsku sjómannanna sem rak hér upp í fjöruna af Pourqua pas?
Laugardagurinn reyndist síðan vera frábær róðrardagur. Verðrið var vel viðráðanlegt og vindurinn var með okkur. Við þurftum að bera bátana spotta yfir eyði á Knarrarnesi en sluppum yfir sundið milli Hjörseyjar og Hjörseyjarsands þótt við værum þar nálægt lágfjöru. Síðan var snætt norðan við Hjörseyjarsandinn en þar er um 1 km löng strönd með ljósum sandi. Nokkuð lag þurfti til að komast á sjó móti öldunni og sjórinn fann okkur Hörð í fjöru, þegar aldan náði bát þversum og hentir honum svo yfir okkur. Þá lágum við báðir á bakinu undir hvorum enda bátsins meðan aldan freyddi yfir okkur.
Þegar við komum að Ökrum var tekin ákvörðun um að láta staðar numið vegna slæmra veðurspár fyrir nóttina og sunnudaginn. Tilkynningaskyldan var þá búin að reyna að ná sambandi við okkur til að vara við veðrinu. Voru bátarnir bornir upp í njóla eftir að við urðum frá að hverfa þar skammt frá vegna brimöldu. Þar ræddum við við Ásmund bónda og hund hans og tjáði hann okkur að við hefðum tekið land örskammt frá þeirri vör sem notuð var fyrr á tímum til sjósókna.
Gamall skólabróðir minn, Magnús Tómasson mynd- og skúlptúrlistamaður býr á Ökrum og veitti hann okkur kaffi og þjóðarréttinn Prins Póló eftir að hafa reynt mjög að fá okkur til að þiggja efnismeiri veitingar. Rifjaðar voru upp nokkra gamlar minningar en að því loknu ók hann okkur í Straumfjörðinn til að ná í bíla okkar og kayak-kerruna. Við félagarnir snæddum síðan saman góða máltíð í Borgarnesi, enda allt nestið vel lokað undir lúgum kayakanna og gott að fara yfir ferðina svona við borðið að lokum.
Hér eru nokkra myndir sem ég vona að allir geti skoðað:
picasaweb.google.com/gislihf/MRarSept2008#

Kveðja, GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 21:13 #3 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Helgarróður Mýrar.
Takk fyrir fína lýsingu á ferðalaginu... þetta hefur gengið nákvæmlega eftir sem ég las úr veðurkortunum á fimmtudaginn. Haugasjór á Borgarfirðinum og síðan skaplegt framundir Knarrarnesið en eftir það áfram haugasjór... Í þeirri (þeim ) áttum sem ríkjandi voru þá er aðdragandi sjólagsins orðinn það langur að aldan er búin að vinda sig uppí haugasjó þarna frá Akranesi og vestur fyrir Snæfellsnes... Þegar vindur stendur af fjöllunum Akrafjalli og Hafnarfjalli - eflist styrkurinn og ýfir hafið upp, hressilega... Það er mikilvægt fyrir sæfarendur að átta sig á þessu...það kemur með reynslunni.. En þið hafið skemmt ykkur vel-- það er aðalatriðið.

Kveðjur Sævar H.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 19:55 #4 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Helgarróður Mýrar.
Og ekki má gleyma að okkur var boðið í bæinn í ferðalok hjá Magnúsi Tómassyni á Ökrum, sá er bekkjarbróðir Gísla H., og skutlaði okkur í Straumfjörðinn eftir kaffiboð. Höfðingi.
-Það er ekki víst að allir hafi tekið eftir því en ég dottaði við eldhúsborðið þar sem fram fóru líflegar umræður. Eg glaðvaknaði við að heyra sjálfan mig segja hátt og snjallt: \"Já þeir hafa verið í vandræðum með hana!\"

Andskotinn, hugsaði ég. Vonandi var þetta ekki alveg úr takti við umræðuefnið.

Ég saup skömmustulegur á kaffinu mínu og reyndi að haga mér eins og almennilegur gestur.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 17:44 #5 by maggi
hér er stiklað á stóru í ferðasögunni en þarna voru betri pennar en ég vonandi skrifa þeir líka.
Við lögðum í hann frá Belgsholti í Melasveit kl 14:00 á föstudag
Spáinn hljóðaði upp á S 7-10 metra en okkur þótti það ekki passa við aðstæður á staðnum
VSV 15-18 m .
Eftir um 2gja km róður út á Borgarfjörðinn og þrjár veltur hjá Örlygssyni var ákveðið að snúa við , enda ölduhæð vel á annan metra og mikill vindur.
Örlygsson er báturinn hans Örlygs en við vorum með hann í drætti í fyrsta legg þar sem Örlygur var ekki laus úr vinnu fyrr en um miðnætti.
Eftir skrautlega lendingu við Belgsholt aftur í talsverðu brimi og sandskreytigum á bátum og búnaði var ákveðið að aka í Straumfjörð tjalda þar og skoða aðstæður á laugardags morninum.
Vanda þurfti val á tjaldsvæði þar sem spáð var SA 15-20 m um nóttina en bóndinn benti okkur á stað sem hann taldi vera góðan , það gekk eftir og við vorum í góðum málum alla nóttina og sváfum eins og lömb.
Örlygur bættist í tjaldið hjá mér um kl 01:30 og var þá orðið full skipað 4 menn.
Eftir þurra nótt máttum við pakka saman í úrhellis rigningu , haft var samband við Gumma B sem sá um veðurguðina fyrir okkur útliti var SA 7-10m fram eftir deigi eða til 15:00 .
Við lögðum af stað kl 9 með vindinn í bakið NV eftir Mýrunum og fengum hinn besta róðrardag .
Milli Niðurnes og Knarrarnes þurftum við að bera bátana dáldin spöl þar sem að það var að falla út og frekar stórstraumur.
Þetta gekk vel fyrir sig enda minn bátur léttastur eins og vanalega
Haldið var áfram og stefnan tekinn á Hjörseyjarsund þar vorum við heppnir og sluppum þar í gegn án þess að bera , tókum svo land á Hjörseyjarsandi í hóflegu brimi og fengum okkur hádegis næringu.
Haldið var áfram út fyrir Skutulsey þar var stefnan tekin í NNE að Mjóanesi og svo NNV
Áleiðis að Ökrum þarna var komin hin myndarlegarsta hafalda og braut tignarlega á skerjum og grinningum allt í kringum okkur enda þurfti orðið að vera vel vakandi til að lenda ekki inní þessum brotum..
Við tókum land í fjörunni sunnan við Akra sem reyndist ekki réttur staður , þá var sjósett á ný og róið inn fyrir nesið , þar var lendingin ekki fær þar sem brimið var ansi hressilegt kannski verið reynandi á tómum bát ekki full lestuðum .
Þarna við hliðina eða var gamalt bátalagi milli kletta sem við nýttum okkur til að lenda ,
En samt tókst undirrituðum að filla allt af sandi í einu öldunni sem náði þarna inn hinum til skemtunar.
Þarna vorum við komnir á þurt um kl 15:00 undirritaður lagði til að þetta yrði látið heita gott enda orðinn laskaður á olbga eftir æfingar helgarinnar en planið var að fara í Hítarnes eða 10 km í viðbót , þeir létu þetta eftir mér enda góðir róðrafélagar þar á ferð.
Lfótlega eftir þetta varð vitlaust veður þannig að samviskan lagaðis hjá mér.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 14:28 #6 by maggi
community.webshots.com/user/maggi211100
Þetta er úr Borgarfyrðinum á föstudag.
Post edited by: maggi, at: 2008/09/14 10:30<br><br>Post edited by: maggi, at: 2008/09/14 10:33

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 14:22 #7 by Sævar H.
Endilega að segja okkur ferðasöguna af þessu ævintýri ykkar. Við sem heima sátum og spáðum í veðurkortin vorum með vissar hugmyndir um þetta ferðalag ykkar og atlæti á áningastöðum.... bíðum spennt eftir framhaldinu.

kveðja, Sævar H.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 sep 2008 14:03 #8 by maggi
Ekki leiðinlegur túr þetta .
hér er smá sýnishorn af sjólaginu en við eigum eftir að gefa betri skýrslu.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 sep 2008 14:12 #9 by Gíslihf
Þakka þér fyrir Sævar. Rifjast nú upp þjóðlegar frásagnir um aðvaranir gamalla sægarpa áður en lagt var upp í ógæfuferðir. Við munum fara gætilega og íhuga hvern kafla ferðarinnar vel, vinna saman eins og gott team og verðum í sambandi við Gumma B sem fylgist með veðurkortum - auk sambands við tilkynningarskylduna.
Við Maggi og Hörður ætlum að hittast kl 1145 á Geldingarnesi og leggja um kl 14 frá Belgsholti. Svenni er að veiðum í Borgarfirði og líklega að verða lasinn annars bætist hann í hópinn - og loks kemur Örlygur í nótt í Straumfjörðinn og hjálpar okkur að halda tjöldunum við jörðina.
Hugsið vel til okkar - bestu kveðjur.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 sep 2008 02:30 #10 by Sævar H.
Það er hressandi að lesa um þessa ferðaáætlun ykkar félaga um þetta magnaða róðrarsvæði- en veðurspáin er afleit á þessum slóðum um helgina og haugasjór - hugið vel að veðurspánni sjá \&quot;veður is. veðurþáttaspá \&quot;

kveðja

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 sep 2008 18:21 #11 by Gíslihf
Sælir félagar.
Veðurspáin er heldur að lagast fyrir föstudag og laugardag en verður þó talsverður vindur og einkum um nóttina. Sunnudagurinn gæti verið ófær en þá munum við fara heim á sunnudagsmorgni og stytta ferðina. Vinsamlega verið í nánu sambandi við Magga (8973386).

Ég var að taka saman gátlista fyrir sjalfan mig og birti hann hér ef það gæti flýtt fyrir einhverjum sem er seinn fyrir - þetta eru minnispunktar en ekki allt nauðsynlegt og e.t.v. hef ég gleymt einhverju:

Kayak og róður: Bátur, flotvesti, svunta, árar með snúru, aukaárar, toglína, lensidæla, vatnsflaska, kort, áttaviti, GPS, ódýr gleraugu með hálsól, myndavél, lóð í bandi til að vita hvað snýr upp í veltunni.
Öryggi og viðgerðir: Sjúkrapakki, farsími (vatnshelt hulstur í vesti), siglingaljós á bát eða vesti, höfuðljós, stróp neyðarljós á vesti, neyðarblys í vesti, hnífur í vesti, flauta í tvesti, verkfæri til viðgerða, aukavír fyrir skegg, viðgerðarband fyrir leka, teiprúlla, stög eða bönd.
Klæðnaður á sjó: Undirföt ( ull eða sambærilegt), aukaundirföt, þurrgalli, skór fyrir róður, ullarvettlingar eða hanskar eða áralúffur, sjóhúfa auk annarra höfuðfata að vali.
Klæðnaður í landi: Hlý undirföt, tvennir sokkar (ullar- eða göngu-), skyrta úr vindheldu efni, peysa, úlpa og buxur (vatns og vindheld), húfa, trefill, vettlingar, skór.
Viðlegubúnaður: Tjald, svefnpoki, dýna, næturföt eftir gæðum poka og þörfum íbúans, prímus, gas, kveikjara og aukaeldfæri, pottur o.fl., tjaldljós, vinnuljós.
Matur o. fl.: Matföng og dagnesti, mataráhöld, hitabrúsi, vatn 4 lítrar, róðrarflaska með vatni, klósettrúlla.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 sep 2008 02:43 #12 by maggi
Fyrir þá sem eru ekki vanir svona ferðum er hér smá listi.Hér er stiklað á stóru varðandi búnað sem þarf í ferðir þegar er farið að hausta

Helsti Búnaður utan við það vanalega

Höfuðljós
Ljós til að hafa á róðri
Stróp
Ljós í tjöld

Þurr aukaföt
Hlijan fatnað til að nota í landi.
Gott tjald sem þolir vatn og vind.
Þurgalli eða sambærilegt
Ára lúffur sjóhettu og hjálm
Stakk eða regnslá til að fara í utan yfir galla þegar tekin eru kaffistopp
menn geta fengið vatn í Straumfyrði en eftir það þurfum við að bera allt vatn með okkur.
endilega hafið samband ef menn eru heitir.
Maggi S 8973386.:)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 sep 2008 19:13 #13 by Gíslihf
Helgin 12.-14. september nálgast og við Maggi erum farnir að hlakka til þess að takast á við róðurinn yfir Borgarfjörð og upp á Snæfellsnes – í haustveðrinu.
Ætlunin er að fara frá Reykjavík kl. 12 á föstudag og leggja á sjó kl. 14 frá Belgsholti í Melasveit. Við höfum fengið leyfi til að tjalda á túninu í Straumfirði, en þar er möguleiki að bætast í hópinn um kvöldið eða þá upp úr kl 7 á laugardagsmorgni en við þurfum að taka daginn snemma vegna sjávarfalla og dagsbirtu. Rétt er að benda á að það þarf örugg og fremur lágvaxin tjöld til að standast þessar haustvindhviður, ekki síst í Straumfirði þegar vindur stendur af Hafnarfjalli.
Næstu nótt ætlum við síðan að vera við Hítarnes (sunnan við Löngufjörur). Ef veður leyfir vonumst við til að enda ferðina við Traðir, neðan við Staðarstað. Við höfðum samband við Harald í Belgsholti, Steinar í Straumfirði og Aðalheiði í Hítarnesi og þau tóku okkur vel.
Þeir sem ætla í þennan róður hafi samband sem fyrst (Maggi 8973386) til að skipuleggja ferðir og flutninga.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 sep 2008 21:36 #14 by maggi
Jæja nú fer maður að telja niður fyrir þennan túr,
planið er að fara úr borgarfyrðinum á föstudag og klára
á Snæfellsnesinu á sunnudag.
þetta er ferð fyrir vana en menn sem eru búnir að róa í eitt til tvö ár eru velkomnir viðmiðið er að menn séu í góðu formi til að róa þ.er. 36.km á dag og séu vel búnir.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

31 ágú 2008 22:34 #15 by Gíslihf
Helgarróður fyrir Mýrar.

Við Maggi (Magnús Sigurjónsson) stefnum á að róa yfir Borgarfjörðinn og þvert fyrir allar Mýrarnar og út á Snæfellsnes, helgina 12.-14. september. Vanir ræðarar eru velkomnir að njóta þessarar leiðar með okkur og við leggjum til að þeir sem ljúka þessum spotta teikni hann inn á sitt persónulega Íslandskort sem hluta af hugsanlegri leið umhverfis okkar fagra land.
Ætlunin er að fara úr bænum um hádegi á föstudegi, á sjó við Belgsholt í Melasveit og róa t.d. í Straumfjörð fyrir kvöldið, gista næstu nótt í nánd við Kaldárós og enda svo síðdegis á sunnudegi á móts við Staðarstað á Snæfellsnesi, þar sem gott er að komast að á bíl.
Þessi áætlun getur breyst vegna veðurs, enda komið haust og ekki hægt að róa seint fram á kvöld. Vanir menn eiga þó ekki í vandræðum með nokkurn vind og ólgu, en þetta svæði verður fljótlega ófært og allt eitt brimlöður í vestan og suðvestan átt. Við höfum undirbúið ferðina m.t.t. siglingafræðinnar og munum hafa samband við ábúendur og rétta aðila vegna öryggis.
Maggi er vís með að koma með ábendingar um búnað sem hafa þarf í huga fyrir þessa ferð og með hliðsjón af þessum árstíma.
Þeir sem hyggjast vera með hafi samband við Magga í síma 897 3386 eða með tölvupósti á msig (hjá) simnet.is.

Kveðja, GHF.
(Gísli H. Friðgeirsson 822 0536 gislihf (hjá) hive.is).

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum