Reykjanes. Hausthittingur

06 okt 2008 04:13 #1 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Reykjanes. myndir
Skýrsla um mótið hermir að til leika hafi mætt tuttugu þátttakendur á öllum aldri og báðum kynjum. Og glatt var á hjalla sem endranær. Héðan úr borginni fórum við Ásgeir Páll og mættum að kveldi föstudags. Þá voru flestir mættir á svæðið og fyrsta kvöldmáltíðin rétt að hefjast. Henni var gerð góð skil og södd og glöð gengum við til laugar og iðkuðum veltuæfingar og kenndum hvort öðru margt gagnlegt. En fyrst og fremst var mikið hlegið og haft gaman.
Snemma laugardagsmorguns var fantagóður morgunmatur á boðstólum og því næst farið í róður með kennslulegu ívafi inn með nýju brúnni og útfallastraumurinn prófaður. Ég réri á Nordköppu enda er hún fín og lipur ballerína.
Straumurinn undir brúnni var rólegur að þessu sinni en það gerði það að verkum að allir gátu skemmt sér í honum. Það var þessi rjómablíða og fyrr en varði var Ásgeir farinn að kenna nýliða djarfar hliðarlegur og krappar beygjur. Það endaði glæsilega, nemandinn hvolfdi bátnum og kennarinn þá farinn að sinna einhverju öðru. Nýliðinn skoppaði þarna með svörtu neoprenhettuna sína og var furðulega róleg bara þangað til hún fékk sína félagabjörgun frá nærstöddum. Nú þegar þessu var nýlokið var kominn hádegismatur. Þannig að ræðararnir sprettu úr spaða og hentu sér í kræsingarnar og settu búningana í þurrkklefanum víðfræga á meðan með þeim afleiðingum að þeir voru heitir og notalegir fyrir síðdegisróður. Hann var boðaður skömmu eftir matinn og nú var set nesti í poka, róið út í Borgarey og heilsað upp á selina síkátu. Se-la-líf upp á frönskuna þetta bauk. Kaffistopp í eyjunni og gaman að því. Við máttum ekki vera of sein í kvöldmatinn og nú var enn og aftur sprett beina leið heim í Reykjanesið, þurrkklefann víðfræga en hæ, það var klukkutími til stefnu uns kvöldveröður yrði framreiddur! Var þetta óvart, eða viljandi - að við gætum varið klukkustund í lauginni góðu, drukkið einn bjór og tekið veltur? Eða bara látið kaldar tærnar linast upp á augabragði? Skiptir ekki máli, þetta var frabær laugarinnkoma. Síðan kom nú kvöldverðurinn. Sávarréttasúpa með skelfiski og fínerí. Mjúkt og gott lamb á grænmetisbeði í aðalrétt og loks soðin pera í karamellugarði og rjómanærveru. Sumir voru búnir að éta yfir sig þegar þesi magnaði eftirréttur kom en reyndu sitt besta. Halldór mótsformaður bjó sig reyndar undir að hesthúsa pönnukökur með rjóma á eftir öllu þessu en þá var mér öllum lokið. Fékk mér Egils bjór í rauðum bauk og fór í laugina. Þar mættu mér níu vegagerðarmenn á bláum frottesloppum og gerðu sig líklega með að dýfa tánum í laugina. Mér leist ekki á þetta. Þeir voru með húðflúr upp á gagnaugu og æði vígalegir satt að segja. En skömmu síðar brast á með söng og tralli og fljótlega kom liðsauki úr hópi kayakfólkins. Það voru teknar veltuæfingar líka og mikið hlegið eins og vanalega.

Á sunnudag var enn og aftur hraukuð borð af morgunverði og fyrir guðsmildi tókst okkur að veltast út í bátana þótt heldur væru þeir þrengri enn daginn áður. Merkilegt hvað bátar geta bara skroppið saman sisvona. En við rérum út með brú og inn í Kaldárbotna og enn og aftur var kennslulegt ívaf á ferðinni sem endranær. Enginn setti bátinn á hvolf þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir leiðbeinenda. Þegar klukkan fór að nálgast matmálstíma tæmdist fjörðurinn af kayakfólkinu og heim var haldið í mat. Nei, fyrsta var farið í laugina og teknar veltur og kennslur.

Mig minnir að allir hafi kjökrað þegar kom að kveðjustund og mér sýndist jafnvel að vegagerðartröllin væru hálfleið líka.
Nú er blásið til nýrrar kjötkveðjuhátíðar á Reykjanesinu eftir áramótin og kannski verður farið á sjó milli máltíða. Annað eins hefur nú gerst. Ég þakka Dóra og Ísfirðingunum og öllum hinum enn og aftur fyrir helgina og sjáumst fljótt á ný.

Myndir teknar af Dóra eru á vef klúbbsins:
www.kayakklubburinn.com/isl/index.php?op...rapper&Itemid=83

Post edited by: Orsi, at: 2008/10/06 13:49
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

03 okt 2008 13:57 #2 by Gíslihf
Bestu kveðjur frá mér - ég kemst ekki.
Ég vona að þið sem farið héðan að sunnan getið deilt ferðakostnaði með því að fara samferða - best að vera útsjónarsamur til að geta haft efni á sportinu áfram þegar þrengir að.
Kveðja,
Gísli H.F.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

30 sep 2008 12:55 #3 by Asgeir
Replied by Asgeir on topic Re:Reykjanes. Hausthittingur
Jæja, er ekki rétt að fara að setja sig í stellingar fyrir helgina:)
Ég er viss um að Vestfirðingar muni bjóða upp á gott veður og víst er að það muni fara vel um okkur í Reykjanesi.
Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta.
Sjáumst í Reykjanesi:)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 sep 2008 21:30 #4 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Reykjanes. Hausthittingur
LOKSINS kom dagsetning sem maður kemst á. Reykjanesið er í senn vagga og hjónasæng framsækinnar kayakmennsku og mæta mun ég allmjögsvo.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 sep 2008 02:59 #5 by Petur Hil
Vegna uppskeruhátíðar og annara anna hefur verið ákveðið að fresta Hausthitting til helgarinnar 3-5 okt. Útlitt er fyrir góða mætingu bæði vanra og óvanra ræðara og vonumst við til að sjá sem flesta að sunnan, norðan og austan:)
kveðja Pétur Hil. og Halldór Sveinbjörns.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum