Að setja sér markmið.

12 jan 2009 04:42 #1 by Gíslihf
Ég var of fljótur á mér, að fagna hugmyndinni um boðróður umhverfis landið. Eftir að hafa hitt félaga í sundlauginni áðan og rætt við Svein Axel er ég honum sammála um að þessi hugmynd býður upp á mikla áhættu - og slys eru það síðasta sem við viljum sjá.

Segjum sem svo að það færi fjöldi ræðara af stað sömu helgina, 2-3 á hverri leið og það ætti að klára hringinn með glæsilegu átaki. Þá værum við búin að skapa hættuástand, erfitt væri að fylgjast með öllum hópunum og ef erfiðleikar kæmu upp á mörgum stöðum í einu væri erfitt að koma til hjálpar. Hver getur svo metið hvort áhugasamur félagi hefur næga færni og þjálfun fyrir slíkt verkefni? Raðróðrar stærri hópa með reyndum leiðangursstjórum eins og verið hefur, bjóða hins vegar upp á miklu meira öryggi. Best væri ef hér á landi væri aðgengilegt að komast í BCU þjálfun og próf, þannig að setja mætti skilyrði um tiltekin stig í því kerfi.

Ég ætla því ekki að opna frekari umræðu um „boðróður“ og dreg hvatningu mína í því efni til baka, en mun hins vegar skrifa pistil um „Strendur Íslands“. Við getum svo haldið áfram að hugsa um hvernig róðra-útfærslur koma til álita.

Kveðja, GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 jan 2009 04:41 #2 by Steini
Replied by Steini on topic Re: Að setja sér markmið.
Ég veit að hjónin Árni Stefáns og Gunnhildur réru góða parta ár hvert í mörg ár, það væri gaman að sjá hvað það er orðinn stór hluti landsin í dag.

Ferðasögu úr einni að þessari ferð þeirra getið þið fundið ef þið farið í;
timarit.is flettið upp Morgunblaði frá 13.júlí 2003 og sláið inn leitarorð Árni B. Stefánsson kajak. Best að opna Ítarleit.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jan 2009 21:55 #3 by Gíslihf
Þetta er áhugaverð umræða félagar og nú er rétt að opna nýjan efnisþráð til að ræða það nánar – sem getur heitið „Boðróður um Ísland“. Boðróður er ný hugmynd en raðróður ekki og margir félagar hafa tekið þátt raðróðrum undanfarin ár og ekki er óhugsandi að þessar leiðir nái saman allan hringinn, þótt t.d. Húnaflóinn, Melrakkasléttan og suðurströndin hafi orðið útundan að mestu.
Hins vegar hef ég ekki heyrt um neinn einn sem hefur farið allan hringinn, þótt það væri á nokkrum árum og ef svo væri þá langar okkur að heyra frá þeim ræðara.
Á nýja efnisþræðinum ætla ég að setja fram hugmynd um 63 dagleiðir sem er komin á kortið mitt.

Kveðja, GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jan 2009 17:46 #4 by valdiharðar
Í framhaldi af umræðunni um boð-/raðróður umhverfis landið þá væri fóðlegt að vita hvort einhver hluti leiðarinnar sé enn óróinn af íslendingi. Eru einhverjir hlutar hennar sem menn geta enn náð því að vera fyrstir til að róa. Stórt en verðugt og fróðlegt verkefni að taka þetta saman.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 jan 2009 04:46 #5 by Sævar H.
Ingi setur hér fram góða hugmynd að róðri kayakfélaga í Kayakklúbbnum. Markmiðið er að róa einskonar boðróður umhverfis Ísland-ef ég skil hann rétt. Þetta getur verið spennandi kostur. Það mætti t.d hugsa sér þetta sem einskonar happadrætti um úthlutun róðrarleiðar. Gaman væri t.d að draga leiðina frá Ísafirði í Hornvík- en aftur lakara að draga Suðurströndina frá Hornafirði í Vík... En hugmyndi er góð og hver veit nema í framtíðinni verði henni róið í framkvæmd.:P

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 jan 2009 23:07 #6 by Ingi
Replied by Ingi on topic Re:Að setja sér markmið.
Verður ekki sá sem klárar fyrstur hringinn kallaður
The Lord of the Ring.:P Grínlaust annars, nokkrar spurningar sem koma uppí hugann við þessar pælingar:
Hvaða klúbbur á landinu skyldi nú verða fyrstur að klára? Má ekki skipta honum niður á félaga?
kveðja,
Ingi

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 jan 2009 03:31 #7 by Gíslihf
Ég sagðist ætla að skrifa eitthvað meira um þetta efni. Það er svolítið sérstakt að þegar erlendir kappar undirbúa róður umhverfist einhverja eyjuna, eins og Svalbarða í fyrra eða Falklandseyjar nú og Ísland, þá er alltaf notað orðið circumnavigat, sem er eiginlega hrein latína fyrir \"hringsiglingu\". Þeir fá mikið af kosturum og tala eins og þeir séu landkönnuðir, gott ef ekki í hættu fyrir villidýrum og frumbyggjum. Því ekki að nota bara \"paddle round Iceland\"? Það er greinilega yfir þessu spenningur landkönnuðarins og ævintýraljómi brautryðjandans. Staðreyndin er þó sú að tími landkönnuða er liðinn fyrir eitt til tvö hundruð árum.

Ég vil þá einnig benda okkur félögunum á að það að róa umhverfis Ísland er ekki bara fyrir einhver ofurmenni, það er hægt að undirbúa eins og að taka þátt í maraþonhlaupi eða göngu upp á Hvannadalshnúk. Það er erfitt, það kostar þjálfun, það getur verið hættulegt eins og ganga á jökli, en er á færi margra ykkar ef þið viljið.

Meira að segja finnst mér að hringróður ætti einfaldlega að vera á dagskrá kayak-klúbba landsins. Hér eru ekki villidýr, nema einstaka þreyttur ísbjörn, ekki hættulegir frumbyggjar nema einstaka þreyttur útrásavíkingur, hér gerast vond veður en það þekkjum við og hér er ekki auðvelt að villast.

Kveðjur, GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

23 des 2008 19:07 #8 by Jói Kojak
Ég myndi líklega keyra hringinn með kajakinn á toppnum og setja á flot þegar viðraðiB)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

22 des 2008 05:46 #9 by Sævar H.
Var það ekki ung stúlka sunnan frá Ísrael sem réri ein síns liðs umhverfis landið og lét vel af?
Ég held að lykilatriði við svona ferðalag sé að vera í öflugu veðurspá sambandi og hafa kunnáttu til að lesa úr henni einkum hvað snertir vindafar af fjalllendi og haföldumyndun fyrir opnu hafi. Allavega ég myndi leggja mesta áherslu á veðurfræðina og hafstrauma og nýta það til fulls. Dvelja í mannabyggðum í rigningartíð og eiga þá góða daga... Þið fenguð að reyna þetta nú í haust Gísli H.F...

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

22 des 2008 04:49 #10 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Að setja sér markmið.
Ég vil leyfa mér að virða Gísla svars við þessum karlmannlega pósti og gagnrýna að ekki sé minnst á áhrifamestu þætti sem verka á ræðara í löngum ferðum. Hér á ég við þvingaða dvöl í landi þegar ekki gefur á sjó. Að vera í tjaldi með blautt dót og geta sig ekki hreyft dögum saman er ótrúlega mikil orkusuga, ekki síst á andlega sviðinu. Engar tækniæfingar eða þrekæfingar búa fólk undir slíkt.

Þegar ræðarar fara í langa leiðangra er ótruflaður nætursvefn við þokkalegan kost í raun guðsgjöf. Það tekur gríðarlega á að verða vansvefta eina nótt, líta til himins og glaðasólskins en vera ósofinn og með blautt drasl. (Það getur líka verið rigning í marga daga og ekki svigrúm til að þurrka) Þá þarf að ákveða hvort dagurinn verði nýttur til að róa þreyttur með blauta draslið - eða fórna deginum í að þurrka og hvíla sig. Daginn eftir gæti síðan verið komið skítviðri og þannig koll af kolli þar til aðstæðurnar yfirbuga menn andlega. Ofan á þetta bætast áhyggjur af batterís- og hleiðslumálum.

Hvernig þjálfa menn sig fyrir því að brotna ekki niður við svona álag?

Menn hafa verið tæpir á því þegar aðstæðurnar eru að gera þá vitlausa.

Reyndur pólfari öskraði einu sinni á enn eina vökina sem tafði hann: ÞETTA ER EKKI SANNGJARNT!!! (Hann var einn)

Og atvinnubílstjóri á Kjalvegi fékk sig einu sinni svo fullsaddan af holum að hann snarstoppaði, hljóp út með öskrum og blóðskammaði veginn.

Ég hef einu sinni hundskammað bátinn minn.



Þegar ræðarar eru vansvefta og taka sénsinn til að hala inn kílómetra yfir daginn skapast hætta á að taka vitlausar ákvarðanir og þá er opnað á möguleikann fyrir slysin.

Löngu leiðangrarnir , hringur um Íslands t.d. snúast um svo margt annað en það sem við höfum stjórn á s.s. líkamlegt form, róðrartækni, rötun og þetta allt. Það eru hlutirnir sem við höfum enga stjórn á sem ráða svo miklu. Veður banna oft för. Og gegn því gildir ekkert annað en reynslan. Ekki það að ég hafi neina leiðangursreynslu.<br><br>Post edited by: Orsi, at: 2008/12/21 20:55

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

21 des 2008 03:50 #11 by Gíslihf
Hvar ætlar þú að róa í sumar?
Það hefur komið upp umræða milli róðrarfélaga á sjónum síðan í sumar, hvort við ættum að setja það markmið að róa umhverfis „Íslandið góða“ en ekki horfa aðeins á erlenda gesti gera það. Það er áskorun að hugsa um þetta verkefni og margir hafa trúlega áhuga en enginn hefur látið beint uppi að hann væri til í að klára málið. Við Maggi Sigurjóns höfum rætt, að róa í sumar tvær langar leiðir á Vesturlandinu og reyndar hafa fleiri leiðir verið ræddar. Mig langar að róa hringinn en eitt er að langa, annað að geta og að framkvæma! Allir vita t.d. að Suðurströndin er erfið og jafnvel í góðu veðri getur þurft að takast þar á við brimlendingar.

Ég vil hvetja ykkur, sem finnst það spennandi en e.t.v. fjarlægur draumur að róa hringinn, til að setja ykkur markmið og vinna síðan að því. Sá sem ætlar að ná markmiði þarf að meta hvað er viðráðanlegt, vinna markvisst að því og láta það hafa forgang. Sá sem lætur ýmsa aðra hluti leiða sig afvega og lætur markmiðið ekki hafa forgang nær aldrei torsóttu marki.

Vinnan að þessu markmiði felst m.a. í þrek- og líkamsþjálfun, lengri æfingaróðrum en við erum vanir, tækniæfingum, að fræðast um búnað og öryggismál, að rýna strandlengjuna, búa til áætlanir með kortum, stefnum, fjarlægðum og lendingarstöðum en einnig að hafa samráð við fjölskylduna og margt fleira.

Hvers vegna er félagi í eldri kantinum, að skrifa um þetta á vef klúbbsins? Ástæðurnar eru tvær, sú fyrri er að þetta heillar mig sjálfan, en sú síðari er að ég vil hvetja yngri félaga. Látið ekki ráðaleysi þjóðarinnar draga ykkur niður, setjið ykkur markmið og sýnið úr hverju þið eruð gerðir, kayakfélagar á Íslandi.

Meira um þetta síðar og verið velkomin að skrifa um þetta efni.

Kveðja, GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum