Hvar ætlar þú að róa í sumar?
Það hefur komið upp umræða milli róðrarfélaga á sjónum síðan í sumar, hvort við ættum að setja það markmið að róa umhverfis „Íslandið góða“ en ekki horfa aðeins á erlenda gesti gera það. Það er áskorun að hugsa um þetta verkefni og margir hafa trúlega áhuga en enginn hefur látið beint uppi að hann væri til í að klára málið. Við Maggi Sigurjóns höfum rætt, að róa í sumar tvær langar leiðir á Vesturlandinu og reyndar hafa fleiri leiðir verið ræddar. Mig langar að róa hringinn en eitt er að langa, annað að geta og að framkvæma! Allir vita t.d. að Suðurströndin er erfið og jafnvel í góðu veðri getur þurft að takast þar á við brimlendingar.
Ég vil hvetja ykkur, sem finnst það spennandi en e.t.v. fjarlægur draumur að róa hringinn, til að setja ykkur markmið og vinna síðan að því. Sá sem ætlar að ná markmiði þarf að meta hvað er viðráðanlegt, vinna markvisst að því og láta það hafa forgang. Sá sem lætur ýmsa aðra hluti leiða sig afvega og lætur markmiðið ekki hafa forgang nær aldrei torsóttu marki.
Vinnan að þessu markmiði felst m.a. í þrek- og líkamsþjálfun, lengri æfingaróðrum en við erum vanir, tækniæfingum, að fræðast um búnað og öryggismál, að rýna strandlengjuna, búa til áætlanir með kortum, stefnum, fjarlægðum og lendingarstöðum en einnig að hafa samráð við fjölskylduna og margt fleira.
Hvers vegna er félagi í eldri kantinum, að skrifa um þetta á vef klúbbsins? Ástæðurnar eru tvær, sú fyrri er að þetta heillar mig sjálfan, en sú síðari er að ég vil hvetja yngri félaga. Látið ekki ráðaleysi þjóðarinnar draga ykkur niður, setjið ykkur markmið og sýnið úr hverju þið eruð gerðir, kayakfélagar á Íslandi.
Meira um þetta síðar og verið velkomin að skrifa um þetta efni.
Kveðja, GHF.