Veður var gott, sunnan kaldi og frostlaust. Þeir sem reru voru GHF, Ólafur(nýliði), Lárus og Smári en hann vann sér það til frægðar s.l. sumar að róa einn frá Stykkishólmi í Skáleyjar og var sólbrenndasti maðurinn í hópnum sem þar hittist.
Við fórum um Fjósakletta, sunnan við Viðey og í kaffi á Eiðinu í krikanum rétt við Garðstjörnina í skjóli. Stundum lítum við hýru auga garðskálann, sem er ofan við litla vík áður en komið er að Eiðinu. Þar er líklega hlýtt inni og væri líklega hægt að semja við borgina um að fá lykil og hafa þarna prímus og kaffigræjur! Í bakaleiðinni skoðaði Lárus botngróðurinn að venju en ég velti fyrir mér að góð æfing væri að reyna að komast upp á Fjósakletta. Aðferðin væri að húkka dráttarlínunni í báttin, fara á sund og upp á flána, binda bátinn svo að eða draga hann upp á flána - bara svona hugmynd!
Það er mikll hundaskítur við gámana okkar. Að vera í skjóli og í hvarfi frá byggðinni, á þokkalegri möl og í myrkri býður upp á ýmislegt. Þarna getur að líta auk hundaskíts, smokka og stundum sorp, eitt sinn kom ég í myrkri að skipta um kayak í plássinu mínu og truflaði þá par í tvíliðaleik, í annað sinn var maður að ná í pakka undir gámunum og skaukst inn í bíl og burt.
Smári var að benda á að kaupa megi hundafælu (Garðheimar) og setja undir gámana - en ég veit ekki hvort hægt er að fá aðrar gerðir fælna.
Gummi Breiðdal var að fara á sjó þegar við lukum túrnum og ef hann kemur aftur gæti hann bætt við frásögn.
Kveðja, GHF.