Í kjölfarið af skemmtilegum vangaveltum um róður klúbbsins umhverfis landið í einhverju formi, samdrátt hjá gæslunni og almenn öryggismál hjá klúbbnum ætla ég að slá hér inn jafn óðum og ég hugsa það sem ég er að velta fyrir mér í þessum efnum.
Ég bjó um tíma í danmörku. Þar er kayakmenning mikil og klúbbar í hverri höfn. Reyndar róa þeir flestir forljótum blýjöntum sem eru svo viðkvæmir að það má varla anda á þá og vilja helst ekki sjá annað en sléttan sjó. Klúbburinn í Álaborg (þar bjó ég) gerir talsverðar kröfur til sinna félagsmanna hvað getu varðar og er með gráðukerfi innan klúbbsins. Hver gráða gefur viðkomandi viss réttindi. Til dænis þarf að hafa náð vissri gráðu til að mega róa yfir Limafjörðinn og ferðir eru mis erfiðar eftir því hvaða gráðustig þær eru fyrir. Nú dettur mér í hug ferð sem okkar góði klúbbur fór í á Breiðafjörðinn síðla síðasta sumars (ég var reyndar ekki í þeirri ferð) þar sem samankominn var stór hópur af mjög mis reyndum ræðurum. Ég þekki það af eigin reynslu sem leiðsögumaður í kayakferðum hjá Ultima Thule að stór hóður er skemmtilegur þegar vel gengur er getur verið mjög viðsjárverður ef eitthvað bjátar á.
Mikil umræða hefur verið undanfarin ár innan klúbbsins varðandi hinar margrómuðu BCU stjörnur og tel ég það mjög góða þróun að félagar klúbbsins sæki þær stjörnur ef kostur er. Þó ég hafi ekki fullkomna trú á því að þessi stjörnugjöf gefi alveg rétta mynd af getu hvers og eins þá er þarna kominn viss kvarði sem menn geta notað til að átta sig á því hvað viðkomandi á að kunna. Þetta er að því leiti sambærilegt við gráðugjöf dananna. Það er augljóslega mikill styrkur fólginn í því fyrir klúbbinn að vita til þess að stjörnum prýddir ræðarar séu þátttakendur í ferðum þar sem óreyndir eru einnig með.
Sjálfur ber ég enga stjörnu. Mér líður reyndar alls ekkert illa yfir því. Ég veit hvað ég hef gert á þeim 12 árum sem ég hef róið sjálfur eða \"gædað\" mis reynslulausum túristum um landið. Hinsvegar veit ég líka hvað það er mikilvægt að vita hverskonar hóp maður er með í höndunum þegar lagt er af stað. Sem gæd er þetta oftast ofur einfalt; það kann enginn neitt!. Þeir sem taka að sér fararstjórn í klúbbferðum eru í annarri og (að því er ég tel) í óþægilegri aðstöðu því þar eru oft samankomnir margir mis reyndir ræðarar og örugglega stundum einhverjir sem telja sig reyndari en þeir í raun eru. Þetta getur skapað óþægindi eða jafnvel vesen ef í harðbakkann slær.
Það sem ég velti því hér upp (eftir þessa langloku) er hvort heppilegt og einnig mjög skemmtilegt gæti verið fyrir klúbbinn að koma upp einhverskomar gráðu/stjörnukerfi fyrir klúbbmeðlimi. Það þarf auðviðað ekki að ganga eins langt og taka hlutina eins alvarlega og bretarnir gera en í mínum huga væri þetta mjög góð leið til að auka öryggi í klúbbferðum, og reyndar almennt í ferðum sem meðlimir klúbbsins fara í. Það mætti hafa stöðupróf á einhverjum tímapunkti á árinu þar sem viss atriði væru prófuð. Þetta gæti orðið hvatning fyrir menn(til dæmis gamla hunda eins og mig) til þess að dusta rykið af atriðum sem maður notar sjaldan og koma sér í form. Og auðvitað væri þá einfaldara fyrir klúbbinn (ef vilji væri fyrir hendi) að setja eihverjar kröfur ef stefnt er á ferðir sem gætu reynst krefjandi.
Þetta var ég að hugsa. Nú er að sjá hvort einhver nennir að lesa þetta