Það er mikið á dagskrá hjá klúbbnum þessa dagana, ferðir næstu tvo laugardaga, fyrst sjókayakferð á stöðuvatni og straumfélagar velkomnir. Síðan er straumkayakferð í Hvtítá og sjómenn velkomnir! Þetta fer að verða ruglandi.
Við sem hittumst hjá Magga til að æfa skipti á skeggvír og fara yfir viðgerðir og viðhald almennt og var það vel heppnað, við fengum einnig að verða ýmsum hnútum kunnugir hjá Örlygi en við höfum ekki enn heyrt hvernig fór fyrir öldureið félaganna frá Álftanesi.
Ég er hér í Rotterdam í vinnuferð í þrjá daga, gisti við höfnina, stórbyggingar eru hér í byggingarstíl sem minnir á skip eða t.d. brú á skipum, sjóminjasöfn, veitingahús á fljótaskipum og hótelið mitt fullt af skipalíkönum. Auk fundargagna er ég að lesa bókina Sea Kayaking eftir John Dowd, sem Lárus lánaði mér.
Það er margt sem má dást að hér, en allt er það manngert og órafjarri íslenskri náttúru. Ég hef sökkt mér svo niður í kayakmennsku í vetur að ég finn það hér í stórborginni að það að vera kayakræðari er orðinn hluti af sjálfsmyndinni, það má segja eins og um fiskinn, að ég sé hér eins og kayakræðari á þurru landi. Ég passa ekki hér, frekar í litlu tjaldi á lítilli eyju eða skeri með þang undir höfði og sel og skarf fyrir nágranna.
Kv. GHF.