Kalli Jör vakti athygli mína á því að það er verið að tala um að banna siglingar straumbáta Í Laxá í Aðaldal.
sjá bls 58-59 í þessari áætlun.
www.ust.is/media/fraedsluefni/pdf-skjol/...etlun_290409_low.pdf
Ég hef ákveðið að senda eftirfarandi bréf til umhverfisstofnunar.
\"Dags: 07.05.2009. Staður: Akureyri.
Efni: Verndun á vatnasvæði Mývatns og Laxár.
Mig langar til að óska eftir rökstuðningi fyrir því að banna siglingar straumkayaka í efri hluta Laxár í Aðaldal. Hefur stofnunin gert einhverjar rannsóknir á þvi hvort að siglingar straumkayaka hafi einhver áhrif á fuglalíf á Íslandi. Ef stofnunin getur lagt fram einhver gögn sem styðja þetta bann mun ég að sjálfsögðu taka tillit til þess.
Að mínu mati eru siglingar á straumkayak einhver heilsusamlegasta og vistvænasta hreyfing sem hægt er að hugsa sér, það skemmist ekki gróður á árbökkum, botn árinnar skemmist ekki, það er enginn hávaði og við skiljum ekki eftir okkur garn eða öngla sem geta auðveldlega skaðað fugla á svæðinu.
Ef banna á siglingar á ánni hlýtur að vera sjálfgefið að veiðar verði bannaðar líka, að öðrum kosti hlýt ég að álíta að það sé einungis verið að þjóna hagsmunum veiðimanna en ekki fuglalífs á svæðinu. Ég tek það fram að við höfum ekki róið á veiðitíma þar sem við vitum að það getur fælt fisk á svæðinu.
Ég tel að náttúruvernd eigi að fela í sér að maðurinn og náttúran geti lifað í sátt og samlyndi og ég held að það sé náttúruvernd ekki til framdráttar að náttúruverndarstofnun setji boð og bönn án rökstuðnings og sannanna, það verður einungis til að stofnuninn missi trúverðugleika sinn. Straumkayakmenn og náttúruverndarstofnun eiga margra sameiginlegra hagsmuna að gæta t.d hvað varðar virkjanir, og við ættum frekar að vinna saman og mynda þannig sterka heild sem að hefur náttúruvernd og vistvæna útvist að leiðarljósi.
Með kveðju: Garðar Jóhannesson áhugamaður um straumsiglingar og náttúruvernd.\"
Mér þætti fínt ef þið getið komið með athugasemdir og ábendingar um efni bréfsins. Einnig er ég meira en til í að bæta við nöfnum ef einhverjir fleiri vilja skrifa undir þetta.
kv þjóðGarðar HM.