Mér finst nú frekar leiðinlegt sem gamall íbúi við FOSSVOG hvað fólk er lélegt í landafræði. Nauthólsvík er aðeins sá hluti af Fossvoginum sem er við ylströndina og heitir efir Nauthól sem er rétt austan við hús Sigluness. Og þar sem gamla skipsflakið liggur er nokkuð örugglega Fossvogur. Þetta er gamalt skip sem var dregið þarna upp í fjöru á síðustu öld og menn brytjuðu það niður í atvinnubótavinnu að því er mér skilst. En við Fossvogin voru eitt sinn tveir slippir, annar þar sem Siglingastofnun er með sína aðstöðu og annar í gamalli grárri skemmu þar sem Þjóðminjasafnið geymir nú gamla báta.
Þar sem Fossvogur endar tekur Skerjafjörðurinn við og ef róið er inn Skerjafjörðin í suðurátt þá tekur við Kópavogur, sem er hinu megin við Kársnesið, og þegar komið er framhjá Kópavoginum tekur við Arnarnesvogur, og litla víkin sem gengur inn að Bessastöðum og er milli Gálgahrauns og Bessastaðaness heitir Lambhúsatjörn.
Þegar róið er út Skerjafjörðin í átt til Seltjarnarness, er róðið fyrst framhjá Skildinganesinu og á vinstri hönd eru Hólmar síðan kemur smá eyða í skerin en þar taka síðan við Löngusker, þeas innstu skerin heita Hólmar, síðan er róið út með Ægissíðuni framhjá gömlum bæjarstæðum sem heita Reynisstaður, Þormóðsstaður, Austurkot, Kapplaskjól (þar sem dælustöðin er),Lambastaðir, Hrólfskáli eða Hrólfskálavör, Þá er komið að Bakka og sandströndin heitir Bakkagrandi, á erum við komin út að Suðurnesi þar sem golfklúbburinn er og fyrsta nefið heitir Búðagrandi.
Ég ætla að vona að þetta upplýsi menn um að Nauthólsvík er aðeins örlítill hluti af Fossvoginum og Skerjafirðinum.