12 manns í dag. Það svona smá eykst fjöldinn eftir því sem sólin hækkar sig á suðurhimninum. Fíllinn sestur upp og lítur á þessar boðflennur sem renna hljóðlaust eftir haffletinum með öðru auga. Flestir komnir með maka. Allavega voru víða pör að sjá í klettunum á leiðinni í Arnarhreiðrið. Eftir smá spjall og nesti þar klofnaði hópurinn og þeir hugrökkustu kíktu hvort lundinn væri kominn í Lundey. Hinir fóru stystu leið heim í sama austan skælingnum og var fyrr um morguninn, en sólin var byrjuð að láta sjá sig öðruhvoru. Lundeyjarfarar hurfu skjótt undir sjóndeildarhringinn og komu svo aftur í ljós á hraðri austurleið sunnan og vestan við Geldinganesið og ekki mátti miklu muna að þeir hefðu orðið á undan þeim sem fóru styttri leiðina. Tjaldurinn leit ekki upp þegar við bárum bátana upp en Orsi tók sér tíma til að líta upp úr MBL og heilsaði uppá hundblauta félaga.
Annars bara fínn róður. Ég prófaði nýju Capelluna sem Klúbburinn var að kaupa og kom hún vel út. Stöðug eins og klettur og bara hörku bátur.
Við byrjuðum að skrifa í bókina aðeins meira en áður og ég held að það verði meira gaman þegar fram líður tíminn að glugga í eitthvað annað en bara róðna kílómetra. Það hefur sýnt sig að það eru margir vel ritfærir klúbbfélagar og endilega látið ljósin skína.
Kv.
Ingi