Við vorum nokkrir sem ákváðum með stuttum fyrirvara að skella okkur í brimbrölt við Þorlákshöfn á laugardagsmorgun. Frábær skemmtan þótt aldan hafi verið heldur brött.
Á staðnum voru auk mín, Hörður, Sveinn Axel, Lárus, Eymundur og Páll R.
Að venju fór Páll í einn kollhnís á bátnum, þráðbeint fram fyrir sig, og vöktu tilburðirnir mikla hrifningu viðstaddra. Sömuleiðis var eftirtektarvert þegar Sveinn Axel tók handveltuna í öldurótinu en sá atburður náðist sem betur fer á myndband og því er ekki hægt að afgreiða frásögn hans af handveltunni sem lygasögu.
Nokkrir prófuðu að losa sig úr bátunum eftir að hafa hvolft, fremur en að taka veltuna upp, en losunin var einungis gerð í tilraunaskyni til að finna hvernig mönnum líður þegar þeir ná ekki að velta sér upp. Við Hörður prófuðum þetta á nokkurn veginn sama tíma. Hörður var þá heldur nærri landi og fjær brimvarnargarðinum en ég og því lenti hann (að því er ég tel) ekki í eins sterkum útstraumi og ég. Straumurinn var svo sterkur að mér reyndist ómögulegt að draga bátinn með mér að landi og ég ákvað í staðinn að láta mig fljóta upp að brimvarnargarðinum þar sem ég gat sest í bátinn í rólegheitunum. Þetta var þörf áminning um hversu brimfjörur geta verið varasamar. Í svona æfingar þarf high og low brace að vera vel æfðar og veltan að vera býsna góð, þó ekki, eins og dæmin sönnuðu, gjörsamlega skotheld.
Myndir og eitt myndband úr túrnum má nálgast hér:
picasaweb.google.com/runar.palmason/Orla...v1sRgCLGE-bOa1ZGYYw#
Tvö myndbönd eru einnig á YouTube:
Post edited by: Rúnar, at: 2009/11/02 10:23