Þetta ár mun seint líða mér úr minni og verði ég nógu gamall til að hætta allri „aksjón“ („fullþroska“ að mati eiginkonunnar) er ég viss um að minningar frá róðri sumarsins munu ylja mér og skemmta betur en öll óvirk afþreying.
Um áramót sendi ég öllum í Kayakklúbbnum og öðrum í kayaksportinu, fjölskyldum þeirra og öðru áhuga- og stuðningsfólki, kveðju og þakkir fyrir árið 2009. Margir, sem tengdust hringróðrinum beint með því að senda veðurskeyti, róa leggi með mér á leiðinni, sýndu gestrisni eða veittu annan stuðning fengu jólakort frá mér en ég bið þá sem hafa gleymst afsökunar. Þið sem voruð í æfingaróðrunum, þeir sem reru síðasta áfangann, þið sem fögnuðuð mér í fjörunni í Eiðisvík, allir sem tóku þátt í gjöf til okkar hjóna, fjölmargir sem fylgdust með ferðasögunni á Korkinum daglega, sumir sendu hvatningu eða kveðjur, takk fyrir stuðninginn.
Margir hafa spurt um fjárhagslega stuðningsaðila. Þeir voru engir, ég gat róið umhverfis Ísland á eigin kostnað, en mér fannst ég ekki geta það og langaði ekki til þess án stuðnings ykkar eða nánustu fjölskyldu minnar.
Kayaksportið veitir góðar stundir í náttúru landsins, við tökumst á við ögrandi verkefni og erum með góðum félögum sem taka þátt í því að þjálfa og tryggja öryggi hver annars. Slíkur félagsskapur er gefandi, í okkar tilviki er skuldbindingin nær engin í þeim skilningi að hver og einn getur hætt og snúið sér að öðru þegar honum hentar, en þegar tekið er þátt í verkefnum og ferðum er skuldbindingin mikil, við treystum hvert öðru og vöxum af því.
Bestu óskir á nýju ári og geti ég stutt einhvern sem vill takast á við stærri verkefni í sportinu mun ég gera það með ánægju.
Sjáumst á vettvangi.
Gísli H. Friðgeirsson.